139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er kannski tvennt sem ég vildi nefna núna þegar líður að lokum þessarar umræðu. Í fyrsta lagi tel ég, eins og hv. þm. Þráinn Bertelsson, að það sé í sjálfu sér full ástæða til og þakkarvert af hv. þm. Merði Árnasyni að vekja athygli á þeim vanda sem fylgir málsmeðferð af þessu tagi og þegar atburðir verða með þeim hætti sem þeir urðu í þessu máli. Við hv. þm. Mörður Árnason erum örugglega alveg sammála um að aðdragandi þessa máls og hvernig þetta ber allt að er ekki eins og best verður á kosið. Ég held að það sé gott fyrir okkur að fá þá umræðu og velta því fyrir okkur hvernig með á að fara í málum af þessu tagi.

Við stöndum stundum frammi fyrir því, þingmenn, bæði innan nefnda og endranær að þurfa að meta hvort ástæða sé til að víkja frá ýtrustu sjónarmiðum um formfestu og reglufestu í þessum efnum. Ég játa að ég hef ríka tilhneigingu, eins og hv. þm. Mörður Árnason, til þess að halda mig á formvængnum vegna þess að eins og hann segir þá þjóna formreglurnar auðvitað mikilvægum tilgangi í því sambandi að undirbúningur sé vandaður að sem flestar hliðar máls séu ræddar og skoðaðar o.s.frv. Formreglurnar eru ekki bara tildur heldur hafa þær líka raunhæfa þýðingu. En eins og í þessu máli og hugsanlega í máli sem við hv. þm. Mörður Árnason þekkjum frá því í desember, þegar við stóðum báðir að því að taka inn í breytingartillögur umhverfisnefndar atriði í sambandi við frumvarp um mannvirki sem þá var til umræðu í þinginu — efnisatriði sem að hluta til vörðuðu aðra lagabálka og hefðu kannski í sjálfu sér ekki átt þar heima ef ýtrustu formkröfur hefðu verið gerðar — þá varð það má segja hagkvæmnisniðurstaða, praktísk niðurstaða að gera það engu að síður. Ég vakti máls á þessu í þingræðu og við hv. þm. Mörður Árnason ræddum það en hins vegar varð þetta auðvitað ekki til þess að ráða úrslitum máls eða afstöðu manna til máls þegar það kom síðan til frekari umfjöllunar og atkvæða.

Síðan er annað mál sem við þurfum að velta fyrir okkur núna. Í dag er 17. janúar og við höfum held ég flest sem höfum tekið til máls í dag verið þeirrar skoðunar að hraða bæri meðferð málsins. Ég varpa því hins vegar upp hvort allsherjarnefnd þyrfti ekki að eiga fund eða eitthvert samtal um þetta mál áður en það fer í gegnum þingið. Þá er ég ekki að tala um þunga málsmeðferð eða langa fundi eða marga heldur að við fáum helstu aðila máls á okkar fund og ræðum það. Ég varpa þessu upp og tel að það geti hugsanlega orðið til þess að bæta upp það sem á skortir hvað varðar aðdraganda málsins og þá málsmeðferð sem hefði vissulega mátt vera betri áður en málið var lagt fram á þinginu.