139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[18:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér, ég vona að enginn þurfi að óttast neitt ef þessar reglur verða lögleiddar með þessum hætti. En ég bið hv. þingmann — ég er ekki að biðja endilega um svör núna — um að velta því fyrir sér af hverju verið er að njörva niður, t.d. í skattalögum, mjög skýrar reglur um það hvenær skattyfirvöldum er heimilt að grípa til aðgerða og hvernig aðgerða þeim er heimilt að grípa til o.s.frv. í að sumum finnst allt of löngu máli.

Krafan er sú að skattyfirvöld, sem hafa mikið vald og hafa mikilvægu hlutverki að gegna, fari eftir skýrum skilmerkilegum reglum um hvað þau geta gert, í hvaða röð og hvernig. Þrátt fyrir hið mikilvæga hlutverk skattsins og þrátt fyrir að við séum sammála um að öllum beri að borga þá skatta sem lög kveða á um er það samt svo að við setjum ekki í lög ákvæði sem segir: Skattyfirvöld geta gert hvað sem er sem þjónar þeim tilgangi að fá fólk til þess að borga skatta. Það er ekki þannig. Það eru settir ákveðnir mælikvarðar, það eru settar ákveðnar leiðbeiningar, skýrar leiðbeiningar, vel útfærðar, smásmugulega útfærðar jafnvel, vegna þess að stjórnvöld verða að styðjast við skýr lög í störfum sínum.

Ég kom inn á það áðan að heimildin sem þarna er ætlunin að gefa samkeppnisyfirvöldum er allt of opin og mér er til efs, eins og ég sagði í ræðu minni fyrr í dag, að hægt sé að benda á nokkurt dæmi, nokkurt einasta dæmi í íslenskri löggjöf um að opinberu eftirlitsvaldi eða opinberri eftirlitsstofnun sé falið jafnopið og óskilgreint umboð og vald og í þessu tilviki.