139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[18:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það var eitt sem ég rak hornin í undir lokin, og sem hv. þingmaður hefur endurtekið hér í tvígang, og það er að þeir sem fara að skrifuðum og óskrifuðum lögum um samkeppni geti verið rólegir í sínu skinni.

Nú skulum við taka sem dæmi að ég reki lítið fyrirtæki og vilji fara að þessum skrifuðu og óskrifuðu lögum og þá er spurning: Hvar fletti ég upp þessum óskrifuðu lögum og af hverju eru þau óskrifuð? Hvað gerist þegar svona matskennd ákvæði koma inn og þau eru auk þess óskrifuð? Er bara eitthvað sem starfsmönnum hjá Samkeppniseftirlitinu dettur í hug þennan og þennan daginn allt í einu orðið óskrifuð lög og reglur fyrir þennan markað? Hvernig í ósköpunum á lítið fyrirtæki að bregðast við þegar hv. þingmaður vísar í óskrifaðar reglur samkeppnislaga?