139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[19:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alls kostar ánægður með þetta svar. Það er nefnilega hvergi í lögunum talað um stór eða lítil fyrirtæki. (VBj: Ég biðst afsökunar.) Hvergi í lögunum er talað um stór eða lítil fyrirtæki og það er í rauninni ekkert sem hindrar það í þessu að menn segi að lítil fyrirtæki séu að brjóta samkeppnislög. Það mætti þá gera það, fara í gegnum það í nefndinni milli 2. og 3. umr. að setja inn ákvæði um að stór fyrirtæki megi ekki brjóta samkeppnislög að þessu leyti.

Þetta er allt of matskennt ákvæði. Ég óttast að embættismennirnir séu búnir að smíða sér þarna vopn í hendurnar sem getur orðið mjög skeinuhætt fyrir markaðinn og fyrir einstök fyrirtæki. Það leiðir aftur hugann að því að auðvitað á Alþingi að semja svona lög sjálft. Þá smíða ekki sérfræðingarnir vopn í hendurnar á sér til að berja á borgurunum heldur mundi Alþingi sem fulltrúi borgaranna reyna að hafa lögin þannig að þeir geti starfað við þau. Það er óþolandi að hafa svona matskennd ákvæði og það er óþolandi að vitnað sé í einhver óskrifuð lög sem menn geta breytt eftir hendinni af því að þau eru óskrifuð.