139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða almennt við þingmenn, jafnt stjórnarþingmenn sem stjórnarandstæðinga, um það að núna þegar við komum hér saman eftir áramót og hefjum seinni hlutann af þinginu er áberandi, ekki síst í ljósi þess að nú eru nær tvö ár síðan þessir ríkisstjórnarflokkar hófu ríkisstjórnarsamstarf sitt, fyrst sem minnihlutastjórn og síðan í meiri hluta, að á borðinu liggur engin augljós atvinnustefna. Aftur á móti lágu fyrir í fjárlagafrumvarpinu alls kyns stefnumarkandi ákvarðanir sem höfðu ekki fengið neina umræðu í þinginu. Ég held að það sé mjög mikilvægt núna að eftirlit þingsins, þar af leiðandi allra fagnefnda þess, verði virkjað og að menn taki að velta fyrir sér með hvaða hætti ríkisframkvæmdarvaldið ætlar að framkvæma þær stefnumarkandi ákvarðanir sem komu fram í fjárlagafrumvarpinu.

Þar má til að mynda nefna niðurskurð á heilbrigðissviði. Nú er það farið að koma fram víða á landinu þar sem störfum er að fækka, búið að segja upp fólki og loka hjúkrunarrýmum. Hvað á að gera við það fólk sem verður borið út úr þeim rýmum? Er það uppbyggileg atvinnustefna að fækka fólki á stöðum sem eiga undir högg að sækja með tilliti til atvinnu? Ekki er á bætandi að heyra síðan hæstv. forsætisráðherra fjalla hér í gær ýmist um orkuauðlindina eins og Magma-málið eða sjávarauðlindina og hvernig ríkisstjórnin kemur þar fram.

Einn þáttur enn sem ríkisstjórnin hefur talað heilmikið um er verklegar framkvæmdir. Þær hafa ekki sést mikið hér, hvorki mannaflsfrekar, minni framkvæmdir í vegamálum né viðhaldsmálum, það hefur ekki sést. Hvar er sú stefna? Sú stefna sem birtist landsmönnum öllum er að hér sé allt í lamandi óvissu og það eina sem ríkisstjórnarflokkarnir koma sér saman um er að þvælast fyrir (Forseti hringir.) atvinnuuppbyggingu. Það getur ekki verið rétta stefnan.