139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra að einhverjir þingmenn Samfylkingarinnar vilja enn fá erlenda fjárfestingu hingað til landsins þannig að yfirlýsingar forsætisráðherra í gær um hugsanlegt eignarnám falla vonandi í skuggann af þessari merku yfirlýsingu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur.

Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir svarið áðan. Ég verð að segja að mér fannst hann í þessu máli, eins og mér finnst þingmaðurinn oftar en margir af þingflokksfélögum hans, vera ákveðin rödd skynseminnar. Hann talaði um að það skipti ekki öllu máli hvers lenskt eignarhaldið sé, svo fremi sem þjóðin fái skynsamlegan og sanngjarnan arð af fjárfestingunni. Það er nákvæmlega það sem við erum öll að tala um, a.m.k. í mínum flokki.

Nýtingartíminn er annað sem þingmaðurinn nefndi. Bæði sveitarfélögin á Suðurnesjum og fyrirtækið sjálft hafa ámálgað þann möguleika að stytta þann nýtingartíma ef það yrði til þess að skapa sátt um málið. Ég er hins vegar ósammála þingmanninum þegar hann segir að forsætisráðherra hafi frekar talað fyrir einhvers konar samningaleið. Forsætisráðherra gerði í gær nákvæmlega það sem forsætisráðherra er svo tamt að gera, hún talaði um samningaleið undir hótunum um eignarnám. Það er nákvæmlega sú aðferð sem hæstv. forsætisráðherra telur yfirleitt, oft og iðulega vænlegasta til árangurs, að þvinga hluti fram með hótunum. Það er það sem mér finnst mjög ógeðfellt og ég held að hafi ekki góð áhrif á erlenda fjárfestingu hingað til lands. (Gripið fram í.)

ESB hefur verið rætt hérna líka og það er náttúrlega mjög magnað að flokkum sem vilja endilega halda Evrópusambandsaðild að okkur Íslendingum er alveg fyrirmunað að skilja að þar gætir (Forseti hringir.) eignarhalds útlendinga á hinum og þessum atriðum, (Forseti hringir.) þar á meðal í sjávarútveginum sem ég gat ekki betur heyrt en að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir væri reyndar að (Forseti hringir.) agitera fyrir.