139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[14:53]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég vildi nefna tvennt sem vakti sérstaklega athygli mína í máli hæstv. ráðherra og ætla að skjóta því að hvoru í sínu andsvarinu. Hann sagði að það blési þannig í pólitísku tilliti í okkar heimshluta að nú væri tækifæri til að tryggja að norðurslóðirnar verði ekki vettvangur vígbúnaðarkapphlaups. Þetta eru atriði sem heita má að séu reglulega rædd á þingum, t.d. Þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins en þar sit ég sem formaður Íslandsdeildarinnar. Þar eru skiptar skoðanir á þessari stöðu og væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra mundi skýra sýn sína á þessi mál örlítið betur, annaðhvort í andsvari eða þá frekar í ræðu síðar í dag. Þetta er kannski eitt af stærstu atriðunum og hann dró það fram í máli sínu áðan að hann teldi að vindar blésu þannig að þetta liti ágætlega út og væri fróðlegt að fá aðeins betri umfjöllun um það mál.