139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[14:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt að ég fari rækilegar yfir það í ræðu minni síðar í dag, en í stuttu máli er í fyrsta lagi sú staðreynd að þegar bandaríski herinn fór af Íslandi var það gert á þeirri forsendu að ekki væru fyrirsjáanleg hernaðarátök í heimshluta okkar í sjáanlegri framtíð. Söm er afstaða Dana og söm er afstaða okkar.

Það eru kannski önnur atriði sem teikna sig líka upp í þessa átt, sú staðreynd að þær deilur sem voru uppi um hafsvæði og landamörk sem líklegastar voru til að leiða til vígbúnaðarkapphlaups á Norðurhöfum hafa verið leystar eða er verið að leysa. Ég nefni sérstaklega stærstu deiluna sem var á milli Norðmanna og Rússa. Hún var leyst öllum að óvörum.

Bandaríkjamenn og Kanadamenn hafa áratugum saman deilt um svæði sem tengjast norðausturleiðinni. Sú deila er komin í farveg sem miðar til lausnar og staðan miklu betri en áður.

Sömuleiðis hafa ýmsar aðrar þjóðir, Danir, Rússar (Forseti hringir.) og Kanadamenn, verið að gera samninga, t.d. um Hanseyju, (Forseti hringir.) þannig að að þessu leyti til held ég að það horfi miklu friðvænlegar en áður í Norðurhöfum.