139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[14:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gjarnan geta svarað spurningu hv. þingmanns eins vel og mér er fært en ég skildi hana ekki alveg. Hv. þingmaður spurði hvort það væri mikil pressa í ráðuneytinu á að fara þessa leið. Ég geri þá ráð fyrir því að hún eigi annaðhvort við norðurstefnuna sem hér liggur fyrir eða leið Evrópusambandsins.

Í ráðuneytinu er jafnan sá háttur að ráðherrann sem því stýrir er húsbóndi þar. Það er alveg ljóst og hefur engum dulist að ég er mikill stuðningsmaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið og sömuleiðis hef ég haft mikinn áhuga á norðurslóðum. Hann er ekki bundinn við utanríkisráðherratíð mína. Ég hef verið í erlendu samstarfi á vegum þingsins frá því að ég hóf þingsetu mína. Þaðan stafar sá áhugi.

Að því er varðar áhuga Evrópusambandsins á að innlima Ísland, eins og hv. þingmaður orðaði það, ætti hún að spyrja Evrópusambandið að því. (Forseti hringir.) Hitt liggur ljóst fyrir að Íslendingar eru að ganga til samninga af fúsum og frjálsum vilja þannig að (Forseti hringir.) það er ekki um neina innlimun að ræða að því leytinu til. Það er þjóðin sem ræður. (Gripið fram í.)