139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:03]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu og held að hinir pólitísku flokkar hér verði sammála henni í stórum dráttum. Hér eru 11 atriði sérstaklega tilgreind og ég á ekki von á að það verði miklar deilur um þau.

Þó er eitt sem vekur sérstaka athygli og það er að fyrstu tveir liðirnir í þingsályktunartillögunni ganga út á það að Ísland verði örugglega skilgreint sem strandríki á norðurskautssvæðinu. Það má segja að þarna sé verið að undirstrika hvað það er mikilvægt. Það kemur fram að fimm strandríki á norðurslóðunum, þ.e. Bandaríkin, Kanada, Rússland, Noregur og Danmörk fyrir hönd Grænlands, hafi gert tilraun til þess að koma á fót samráðsvettvangi í málefnum norðurslóða án þátttöku Íslands, Finnlands og Svíþjóðar eða fulltrúa frumbyggja.

Þetta er mjög alvarlegt mál að mínu mati og af því að haldnir voru tveir svona fundir sem við mótmæltum harðlega vil ég gjarnan spyrja (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig standa þessi mál í dag? Getur ráðherrann upplýst okkur um það (Forseti hringir.) hvers vegna í ósköpunum Norðmenn og Danir, sem við teljum vera sérstakar vinaþjóðir okkar, ákváðu að taka þátt í þessu samráði án okkar?