139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti réttilega á að það hefur verið mjög sterk viðleitni af hálfu þessara fimm stóru þjóða sem skilgreina sig sem strandríki til að hafa með sér eigið samráð. Það dregur úr vægi Norðurskautsráðsins og dregur úr áhrifum smærri þjóða eins og Íslendinga. Við höfum mótmælt því mjög harkalega, raunar verið eina þjóðin sem hefur tekið svo til orða eins og við höfum gert. Við höfum sömuleiðis hnýtt við það mótmælum við því að fulltrúar frumbyggja hafi ekki heldur fengið aðkomu að þessum samráðsfundum.

Ég mundi telja að ærlegasta svarið um stöðu málsins væri að það er óbreytt, þó með þeirri breytingu að Bandaríkin hafa nú lýst yfir að þau eru mótfallin ráðslagi ríkjanna fimm. Það finnst mér líklegt að verði til þess (Forseti hringir.) að það dragi úr líkum á því að fleiri fundir verði haldnir (Forseti hringir.) þó að ekki hafi fengist staðfesting á því.