139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa látið skoðun sína á þessu máli í ljós með svo skeleggum hætti. Það skiptir máli fyrir málflutning okkar út á við að það liggi alveg skýrt fyrir að það er ekki bara utanríkisráðherra sem hefur þessa skoðun heldur sem flestir þingmenn.

Ég get fullvissað hv. þingmann um að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki legið á liði sínu við að koma þessu sjónarmiði á framfæri og ég mun gera það síðar í þessari viku, á fundi í Noregi, en ég hef gert það mörgum sinnum. Ég hef átt fundi með norskum kollegum mínum, norrænum kollegum, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, utanríkisráðherra Kanada, og ég hef fyrir hönd ríkisstjórnarinnar tekið nokkuð sterklega til máls um þetta, m.a. oft í fjölmiðlum í Kanada þar sem umræður eru um þetta, m.a. vegna þess að það erum ekki bara við heldur hafa frumbyggjarnir líka verið lokaðir frá.