139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var með tvær spurningar til hæstv. utanríkisráðherra og önnur þeirra var svipaðs eðlis og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir bar upp. Ég tek undir áhyggjur hennar og fagna líka þeim sterku orðum sem komu fram í máli hæstv. utanríkisráðherra. Um leið fagna ég þessari tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Gríðarleg tækifæri felast í þessu.

Ég vil aðeins fá þetta skýrar og m.a. geta þingmenn okkar í þingmannanefnd NATO hugsanlega komið í ræðum á eftir inn á afstöðu Dana varðandi „Arctic five“. Sér hæstv. utanríkisráðherra fram á að það verði boðað til fundar aftur hjá Norðmönnum, Rússum Dönum, Bandaríkjamönnum og Kanada þrátt fyrir mótmæli okkar og þrátt fyrir að við höfum átt hauk í horni þar sem Hillary Clinton er og að hún hafi reynt að slá á puttana hjá þessum þjóðum? Hver eru líkleg næstu skref í þessu máli?

Þetta var önnur spurningin.

Síðan vil ég jafnframt minnast eins fundar sem við sátum bæði, ráðherra- og þingmannafund EFTA, (Forseti hringir.) þar sem var komið m.a. inn á samskipti Norðmanna og Rússa varðandi norðurslóðamálefni. (Forseti hringir.) Hvernig sér hann þau samskipti þróast? Mitt mat er að (Forseti hringir.) það sé eitthvert hökt þar.