139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður, sem er leiðandi stjórnmálamaður í stærsta flokki stjórnarandstöðunnar, taki til máls með jafnskýrum hætti og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði áðan. Það er mjög mikilvægt að það liggi alveg ljóst fyrir gagnvart þeim sem skoða umræður af þessu tagi að sem flestir og helst allir flokkar séu algjörlega andsnúnir því með hvaða hætti þjóðirnar fimm hafa hagað samráði sínu.

Hv. þingmaður spyr mig síðan hvaða líkur séu á áframhaldandi fundum. Svarið er bara að það er ekki hægt að útiloka að slíkur fundur verði haldinn. Þeim mótmælum sem við höfum komið á framfæri, jafnvel við okkar bestu frændþjóðir, hefur ekki verið tekið opnum örmum svo ég orði það varlega.

Varðandi samskipti Rússa og Norðmanna er ég algjörlega ósammála hv. þingmanni. Ég tel að þau séu verulega að batna núna síðasta missirið alveg eins og samskipti Rússa við flestar þjóðir, þar á meðal okkur.