139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því. Mér gafst ekki tími til þess í minni stuttu ræðu áðan að taka einmitt hina hliðina á peningnum sem er sú að að sjálfsögðu hefur mátt merkja á undanförnum missirum mikinn vilja af hálfu Rússa til þess að ná samkomulagi um ýmis mál sem hafa lengi verið deilumál. Þar ber hæst að sjálfsögðu sá samningur sem Norðmenn og Rússar náðu á síðasta ári, tímamótasamningur, um deilumál um hafsvæði sem hefur staðið yfir í áratugi og báðir aðilar mjög ánægðir með þann samning. Það er kannski þess vegna, og þá vísa ég í andsvar við ræðu hæstv. ráðherra sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var með, eftir þann samning finnur maður að Norðmenn eru aðeins að draga sig til baka í þessu, vegna þess að ég held að þeir vilji ekki með nokkrum hætti styggja Rússa þarna vegna þess að samstarfið er orðið gott.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég held því ekki fram að þarna sé um heiftarlegt vígbúnaðarkapphlaup að ræða á norðurslóðum. Ég bendi hins vegar á að þarna er ákveðin hernaðaruppbygging til staðar hjá mörgum þjóðum sem um ræðir. Það ber að hafa bak við eyrað að menn gera ekki slíkt að gamni sínu. Það eru ákveðnar ástæður, menn eru að merkja hornið sitt ef svo mætti segja. Utanríkisráðherra Noregs hefur gjarnan talað um „high north, low tension“, að allir vilji halda málum þannig. Ég held að það sé mjög almennur skilningur.

Varðandi það sem eftir forsætisráðherranum er haft, þannig að það liggi fyrir, var ég ekki beðin sérstaklega fyrir það, sá ákveðni þingmaður sem sagði mér þetta sagði það í viðurvist fleiri en (Forseti hringir.) mín þannig að ég hef þetta eftir fyrstu heimild.