139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Örfá orð til viðbótar um Rússa. Ég tel að fyrir utan samninginn milli Norðmanna og Rússa, sem vissulega er mjög jákvætt teikn um vilja beggja þessara þjóða til að draga úr spennu í þessum heimshluta, sé sá fundur sem Rússar mættu á, utanríkisráðherrann Lavrov, þegar hann kom á fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsríkjanna í New York í september síðastliðnum, og síðan þátttaka Medvedevs í Lissabon á leiðtogafundi NATO, enn skýrara tákn um það að Rússum er alvara með að reyna að ná samvinnu um öryggismál við Vesturlönd. Það eitt í sjálfu sér dregur auðvitað verulega úr spennu hér á norðurslóðum.

Vitaskuld gera Rússar kröfur um að ákveðnar forsendur verði uppfylltar. Ég held eigi að síður að þetta tvennt og margt annað bendi til þess að þeim sé full alvara með að ná miklu betri tengslum við Vesturlönd og ekki bara á öryggissviðinu heldur ekki síður á hinu efnahagslega sviði. Þeir vilja bersýnilega bæði fá erlendar fjárfestingar í tiltekna þætti og sömuleiðis vilja þeir eðlilega fá að deila vestrænni tækniþekkingu sem getur orðið bæði þeim til góða og ávinnings en líka okkur. Mér finnst mjög margt hníga að því á því augnabliki sem við lifum í sögunni, að gluggi hafi opnast til að ná samkomulagi á næstu árum um það hvernig skuli með norðurslóðir fara, alveg eins og opnaðist af sérstökum ástæðum ákveðinn gluggi til þess að ná frægum samningi um suðurskautið. Það var af því að tilteknar aðstæður sköpuðust þá. Ég held að svipaðar aðstæður gætu verið að skapast hér á norðurhvelinu.