139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það, ég tel að Rússar sem og aðrir aðilar að þessu svæði hafi einmitt það markmið að halda spennunni niðri, og ítreka það.

Það sem við þurfum öll að hafa í huga, og það kom glögglega fram í ferð varnarmálanefndarinnar til Grænlands, er að þrátt fyrir miklar áskoranir á þessu svæði, miklar vegalengdir á milli ef eitthvað gerist eru svo óendanleg tækifæri þarna. Það eru óendanleg tækifæri í ferðaþjónustu, það eru óendanleg tækifæri í náttúruauðlindum sem þar er að finna en áskoranirnar eru þannig að þeim verður ekki mætt nema með samstarfi ríkja og það er kannski nokkuð sem ég hafði ekki tíma til að koma inn á í ræðu minni. Það er alveg augljóst eins og þegar 42 skemmtiferðaskip sigldu í sumar að ströndum Grænlands og 4.200 farþegar voru um borð í því stærsta. Við fengum að sjá myndir hjá danska aðmírálnum sem var að lýsa þessu sem stórfenglegu hugsanlegu vandamáli. Hann sýndi myndir af farþegunum sem voru að fara í litlum Zodiac-gúmmíbátum út á hafið þarna — sem menn lifa ekki meira en tvær sekúndur í — með björgunarvesti eins og maður setur um hálsinn á sér þegar maður fer út á lygnt stöðuvatn, þetta voru eldri ferðamenn og það sér hver heilvita maður að 4.200 slíkir að fljóta þarna um á einhverjum björgunarbátum mundu ekki lifa það af. Til að bregðast við þessu þurfa öll ríkin þarna að taka sig saman um að búa til viðbúnaðaráætlanir, skapa samstarf þar sem tæki og tól (Forseti hringir.) væru nýtt með sem bestum hætti og ég held að það sé að meginstefnu til vilji allra aðila. (Forseti hringir.) Ég tel að Atlantshafsbandalagið hafi hlutverki að gegna í þessu.