139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsöguræðu og framlagningu tillögunnar sem við höfum hér til umfjöllunar, tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Ég vil líka leyfa mér að fagna þeim viðbrögðum sem ég hef þegar heyrt frá hv. þingmönnum við framlagningu tillögunnar og vonast til að viti á góða samstöðu varðandi áframhaldandi vinnu í þinginu um þetta málefni.

Ég vil þó segja strax í upphafi að mér þóttu svolítið sérkennileg viðbrögð sem komu fram í andsvari hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur við ræðu hæstv. utanríkisráðherra. Þar var það dregið sérstaklega fram að framlagning málsins hefði eitthvað með það að gera að Alþingi hefði ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta langsóttar skýringar og pínulítið eins og að mæta hér og segja draugasögur um hábjartan dag. Ég held að menn verði að komast upp úr þessum leiðinlegu skotgröfum og geta tekist á og fjallað um málefni eins og þetta á þeim forsendum sem hæfa viðfangsefninu. Ég vil bara hafa sagt þetta því ég vonast til að sá málflutningur sem þarna var hafður uppi sé ekki til vitnis um það sem vænta má af hálfu þingmanna Framsóknarflokksins. Reyndar fannst mér viðbrögð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur benda til hins gagnstæða. Vona ég að það sé það sem koma skal.

Á síðasta áratug hefur alþjóðlegur áhugi á norðurslóðum farið vaxandi samhliða loftslagsbreytingum og sókn í auðlindir norðursins. Minnkandi ís vegna hlýnandi veðurfars mun gera áður torsótt svæði aðgengileg fyrir siglingar og auðlindanýtingu. Þessi þróun hefur í för með sér ný tækifæri sem mikilvægt er að Íslendingar nýti sem best. Á sama tíma hafa yfirvofandi breytingar hættur í för með sér sem íslensk stjórnvöld þurfa að fylgjast vel með og vera í stakk búin að bregðast við í samvinnu við aðrar þjóðir. Því er mikilvægt að hafa skýra stefnu í málefnum svæðisins sem tryggir hagsmuni Íslands. Í framtíðarstefnumörkun er mikilvægt að hafa í huga að málefni norðurslóða takmarkast ekki við málefni einstakra byggða eða svæða á Íslandi heldur tengjast þau stöðu Íslands og hagsmunum í alþjóðlegu samhengi. Forsendan fyrir því að Íslendingar geti haft áhrif á og notið góðs af þessari þróun og dragist ekki aftur úr öðrum þjóðum er virk hagsmunagæsla og stefnufesta í alþjóðasamskiptum um málefni norðurslóða.

Margs konar hættur fylgja aukinni skipaumferð samfara vaxandi áhuga og sókn í olíu- og gasauðlindir, fiskstofna og aðrar auðlindir á norðurslóðum. Því er spáð að siglingar skemmtiferðaskipa sem og olíu- og gasflutningaskipa auk kjarnorkuknúinna ísbrjóta og kafbáta muni stóraukast á norðurskautssvæðum og í nágrenni Íslands. Þetta kallar á nánari samvinnu allra norðurslóðaríkja og sameiginlega hagsmunagæslu innan alþjóðastofnana sem sinna umhverfisöryggi og siglingum. Þá er friðsamlegt samstarf á grundvelli þjóðarréttar um sjálfbæra nýtingu auðlinda norðursins brýnt hagsmunamál Íslendinga. Stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda í hagsmunamálum Íslands á norðurslóðum byggjast á mannauði og þekkingu á því sviði. Þannig hafa íslensk stjórnvöld nú þegar beitt sér fyrir aukinni áherslu á þverfaglegar rannsóknir sem geta nýst við upplýsta stefnumótun í málefnum norðurslóða á vettvangi norðurskautsráðsins og í norrænu samstarfi. Sívaxandi hlutur Íslands í norðurslóðasamvinnu grundvallast m.a. á öflugu framlagi íslenskra vísindamanna og rannsóknarstofnana í náttúru- og hugvísindum. Hér gegna umhverfisráðuneytið og stofnanir þess mikilvægu hlutverki.

Á Akureyri hefur orðið til vísir að alþjóðlegri norðurslóðamiðstöð en þar hafa fjölmargar stofnanir og samtök sem sinna rannsóknum á norðurslóðum aðsetur, þar með talið skrifstofa tveggja starfshópa Norðurskautsráðsins, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og rannsóknarþing norðurslóða.

Norðurslóðir eru vonum seinna að fá meira vægi í alþjóðamálum. Í fyrsta lagi eru náttúru- og vistkerfi norðursins mjög viðkvæm fyrir hlýnun andrúmsloftsins og kalla á rækilegt eftirlit. Í annan stað er þar að finna stóran hluta af ónýttum olíu- og gaslindum heimsins. Í þriðja lagi líta menn til þess að skipaleiðir gætu í framtíðinni opnast milli Kyrrahafs og Norður-Atlantshafsins um Norður-Íshafið. Í þessu ljósi er nauðsynlegt að marka skýrari stefnu um hlutverk Íslands á svæðinu. Kjarninn á að vera að efla utanríkispólitískt vægi Íslands í málefnum norðursins í því skyni að styrkja stöðu þess gagnvart vernd náttúru- og vistkerfa, nýtingu auðlinda, þróun siglingaleiða, samvinnu á sviði leitar- og björgunarstarfa en ekki síst varðandi réttinn til þátttöku í pólitískum ákvörðunum sem varða norðurslóðir.

Núverandi ríkisstjórn hefur lagt sérstaka áherslu á þessi málefni, eins og fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra, og í samstarfsyfirlýsingu flokkanna tveggja segir þar m.a. um þessi mál, með leyfi forseta:

„Málefni norðurslóða verða forgangsmál og viðfangsefni svæðisins þarf að leysa á grundvelli gildandi alþjóðasamninga, alþjóðastofnana og svæðasamstarfs. Áhersla verði lögð á að vernda viðkvæmt lífríki svæðisins, sjálfbæra nýtingu auðlinda og aukið samstarf á Norðurlöndum um viðbúnað gegn umhverfisvá og slysum á norðurhöfum, leit og björgun.“

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða, frú forseti, að hér sé um nýja forgangsröðun að ræða af hálfu íslenskrar ríkisstjórnar og hennar sér að sjálfsögðu stað, nú þegar lögð hefur verið fyrir Alþingi tillaga um heildstæða stefnumótun í málefnum svæðisins.

Hin þunga áhersla um norðurslóðamálin er í mínum huga hluti af nýrri sýn og skýrt dæmi um hve mikið aðrir þættir en hernaðarlegir skipta máli fyrir öryggi lands og þjóðar þar sem sjónum er einkum beint að umhverfi og samfélagi og hagsmunum þess en ekki hernaðaruppbyggingu. Það er enda óumdeilt að aukinn hernaðarumsvif á norðurslóðum þjóna ekki hagsmunum Íslands, þvert á móti.

Ég vil líka geta þess að í september síðastliðnum samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu, þar sem fyrsti flutningsmaður var hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna. Hún var til umfjöllunar í utanríkismálanefnd og utanríkismálanefnd fjallaði um hana sérstaklega á vinnufundi nefndarinnar í ágúst síðastliðnum sem haldinn var á Akureyri þegar nefndin heimsótti m.a. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólann á Akureyri til að ræða um norðurslóðamál.

Í nefndaráliti kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur áherslu á að norðurslóðamál séu eitt af forgangsverkefnum íslenskrar utanríkisþjónustu …“

Undir þetta nefndarálit rituðu fulltrúar allra flokka í utanríkismálanefnd. Það er því óumdeilt held ég, að allir íslenskir stjórnmálaflokkar vilja leggja áherslu á málefni norðurslóða.

Ég lýsti stuttlega í máli mínu áhyggjum af öryggisþættinum og umhverfisvánni sem okkur stafar að sjálfsögðu af auknum umsvifum á þessu svæði. Ég vil í því sambandi minnast á að á 135. löggjafarþingi lagði ég fram tillögu til þingsályktunar þar sem lagt var til að Alþingi fæli samgönguráðherra í samráði við umhverfisráðherra og utanríkisráðherra að semja reglur um siglingaleiðir við norðan- og vestanvert Ísland sem ég tel að hafi mikið vægi. Markmiðið með því var að sjálfsögðu að treysta öryggi siglinga, auka öryggi sjófarenda og draga úr líkum á óhöppum og alvarlegum afleiðingum slysa fyrir hið viðkvæma umhverfi og lífríki, eins og segir í þeirri tillögu. Sú tillaga fékkst ekki rædd en ég tel engu að síður að þetta sé hluti af því sem við þurfum að skoða á næstu missirum og árum. Í því efni var m.a. vísað til ráðstefnu sem haldin var á Akureyri undir heitinu „Ísinn brotinn“, um þróun norðursvæðisins og sjóflutninga. Í samantekt ráðstefnunnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Loftslagsbreytingar um allan heim, ásamt því að hafís á norðurskautssvæðinu hefur hörfað undanfarin 50 ár, sem á sér vart fordæmi, hafa leitt til þess að hafskip geta nú siglt um hafsvæði norðurskautsins í ríkari mæli en áður. Rannsóknargögn sýna að ís yfir hafsvæðum minnkar stöðugt og nýlegt líkan gefur til kynna að Norður-Íshafið kunni að verða íslaust með öllu stuttan tíma að sumri (í september) frá 2040 að telja eða fyrr. Norðurskautssvæðið gefur vísbendingu um loftslag jarðarinnar í framtíðinni — tíu ár breytinga á norðurskautssvæðinu jafngilda nokkurn veginn 25 árum sjáanlegra breytinga annars staðar á jörðinni.“

Þetta er þýðingarmikið atriði sem ég tel að hljóti að kalla á æ meiri athygli á næstu árum. Þess vegna fagna ég sérstaklega þeim áherslum sem lagðar eru í þessari tillögu til þingsályktunar af hálfu hæstv. utanríkisráðherra þar sem rætt er um að tryggja hagsmuni Íslands með tilliti til áhrifa loftslagsbreytinga, umhverfis- og auðlindamála, samfélagsþróunar og slíkra hluta. Ég fagna líka þeirri áherslu á pólitískt vægi svæðisins og mikilvægi þess að Íslendingar hasli sér völl þar í því samhengi, réttindi frumbyggja o.s.frv.

Ég vil líka taka undir þau orðaskipti sem hér hafa átt sér stað varðandi fundi Norðurskautsráðsins og ríkjanna fimm. Þar tel ég að við verðum að halda vöku okkar og halda málflutningi okkar á lofti, bæði af hálfu framkvæmdarvaldsins og þingsins.

Að lokum vil ég segja að ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra. Ég tel eðlilegt að málið fari til umsagnar á vettvangi umhverfisnefndar en jafnframt einnig í Íslandsdeildum Norðurskautsráðsins og Vestnorræna ráðsins, (Forseti hringir.) svo dæmi sé tekið. Ég heiti því að utanríkismálanefnd, að svo miklu leyti sem ég fæ einhverju um það ráðið, mun taka málið til gaumgæfilegrar skoðunar. Ég vænti þess að (Forseti hringir.) hægt verði að afgreiða það fyrir vorið.