139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Utanríkismál skipta miklu máli, ekki síst fyrir litla þjóð eins og okkar. Það er nú svo að mestu ágreiningsatriði í íslenskri pólitík hafa snúist um utanríkismál og þó að vissulega sé óþarft að telja atriðin upp ætla ég samt að gera það.

Ég vil fyrst nefna aðildina að NATO sem skipaði okkur í hóp vestrænna lýðræðisríkja. Ég vil þá nefna aðildina að EFTA sem opnaði fyrir fríverslun með iðnaðarvörur og var grunnurinn að auknum hagvexti hér á landi; samninginn um EES, en með honum urðum við hluti af hinum svokallaða innri markaði Evrópusambandsins. Sá leiðangur skilaði okkur væntanlega meiri efnahagslegri hagsæld en nokkur hafði þorað að vona þótt okkur hafi með vitleysislegu framferði tekist að klúðra stórum hluta af þeim ávinningi. Loks erum við nú í mjög mikilsverðum viðræðum um aðild að Evrópusambandinu sem mikill styrr stendur um og sýnist sitt hverjum hvað heillavænlegast sé í þeim efnum þó að í mínum huga sé ekki neinn vafi í þeirri von að þeir samningar gangi fram eins og horfir.

Nú leggur hæstv. utanríkisráðherra fram tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Þetta er mjög mikilvæg tillaga, ekki síður en aðrar miklar ákvarðanir í utanríkismálum sem teknar hafa verið. Það má þó heyra af ræðum hv. þingmanna í dag að um þessa stefnumótun ríkir meiri sátt og samhljómur en við eigum að venjast í mikilvægum utanríkismálum. Það helgast væntanlega af því að með henni mörkum við okkur stöðu og köllum eftir áhrifum sem okkur finnst sjálfsagt að við höfum vegna þess hvar á landakortinu við erum. Við sækjum fram og köllum eftir áhrifum og við slíkar aðstæður fer okkur vel að standa saman og um það er lítill ágreiningur, sem betur fer.

Þær loftslagsbreytingar sem hafa orðið og valdið breytingum á landslagi og landsháttum á norðurslóðum hafa verið mun hraðari en búist var við. Kannski má ekki seinna vera að við setjum okkur skýra stefnu í þessum málefnum svo að við sjálf, ekki síður en heimurinn, vitum hvað við viljum og hvert við stefnum í þeim efnum.

Með þingsályktunartillögunni er áréttað að Norðurskautsráðið er mikilvægasti samstarfsvettvangurinn um málefni norðurslóða, en þar eigum við sæti, ekki er um það deilt. Einnig er sótt á um að staða okkar sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins verði viðurkennd, eins og landfræðileg staða landsins kallar á. Það hefur komið fram í ræðum fyrr í dag að til að þetta verði gert þurfum við að sækja fram og sýna fram á að virkilega beri að viðurkenna Ísland sem strandríki í þessu samhengi.

Stefnuyfirlýsing sú sem hér er til umfjöllunar er ekki einungis kröfugerð um að vernda hagsmuni okkar sem hafa verið tíundaðir hér, fyrst af hæstv. ráðherra sem efnahagslegir ýmiss konar, hernaðarlegir af öðrum ræðumönnum og ætla ég ekki að tíunda það. Ég vil frekar nefna annað sem mér finnst athyglisvert, gott og mikilsvert í þessari þingsályktunartillögu, en í henni eru fyrirheit um að líta til svæðisins í stærra samhengi en ekki bara eins og við séum þar nafli heimsins. Ég vitna þá í þingsályktunartillöguna, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Ekki ber að einblína á þrönga landfræðilega skilgreiningu heldur líta á norðurslóðir sem víðtækt svæði í vistfræðilegum, efnahagslegum, pólitískum og öryggistengdum skilningi.“

Ég vil ítreka að mér finnst þetta atriði mjög mikilsvert.

Einnig langar mig sérstaklega að nefna og fagna 6. lið stefnuyfirlýsingarinnar um að styðja við réttindi frumbyggja á norðurslóðum í nánu samstarfi við samtök þeirra og styðja beina aðild þeirra að ákvörðunum um málefni svæðisins. Eins og segir í greinargerðinni þá er það hlutverk okkar sem smáþjóðar og málsvara mannréttinda að gera það.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að fara fleiri orðum um tillöguna en hlakka til umræðunnar í utanríkismálanefnd um þetta mikilvæga málefni.