139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:16]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hæstv. utanríkisráðherra talar um mögulega átakspunkta í þessu skjali, að þeir hefðu kannski getað snúist um öryggismál. En miðað við hvernig þetta er fram sett og miðað við það sem aðrir þingflokkar hafa komið á framfæri er alveg ljóst að ekki er ágreiningur á því sviði. Enda má kannski segja að talsvert mikið hafi verið rætt um öryggismál á norðurslóðum hin seinni ár. Ég vil benda á að í Norðurlandaráði var það tabú áður fyrr en núna eru þau mál sérstaklega til umræðu á norrænum vettvangi. Menn hafa nálgast mjög hver annan mundi ég segja. Gefin var út svokölluð Stoltenberg-skýrsla og var komið inn á hana í þingskjalinu þar sem menn vilja láta meira til sín taka varðandi öryggismál. Þá er ekki um að ræða þessi hörðu hernaðarmál heldur mýkri öryggismál, samvinnu um mengunarvarnir, samvinnu um björgun á sjó og landi og önnur slík mál.

Ég held að ágætlega hafi verið að verki staðið hér hjá okkur. Við höfum gert tvíhliða samninga við nokkur ríki, bæði Noreg, Danmörku og Kanada, varðandi öryggismál þó að það lúri alltaf svona á bak við að maður er ekki alveg með það á hreinu hvað gerist ef risastórt olíuskip fer upp að ströndum landsins eða ef risastórt farþegaskip sekkur, það yrði mikil katastrófa. En alla vega höfum við gert það sem við höfum getað til að efla tvíhliða samstarf um þessi almennu öryggismál.

Ég vil líka benda á NATO-fundinn sem var haldinn hér fyrir skömmu. NATO hefur áhuga á norðurslóðum en þá ekki beint í þessari hernaðarvæðingu. En að sjálfsögðu er stóraukinn áhugi á norðurslóðum. Ísinn er að bráðna og siglingaleiðir eru að opnast og gríðarlegir sjóflutningar fara fram á þessu svæði. (Forseti hringir.) Það er kannski þess vegna sem augu manna hafa ár frá ári verið að opnast fyrir því hversu mikilvægt hagsmunamál þetta er.