139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:18]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er langt liðið á umræðuna og kannski ekki svo mörg efnisatriði órædd, en ég tek til máls fyrst og fremst sem formaður Vestnorræna ráðsins, fulltrúi þeirra þriggja landa sem eiga gríðarlegra hagsmuna að gæta varðandi málefni norðurskautsins og norðurslóða, þ.e. Íslands, Grænlands og Færeyja.

Ég vil segja það fyrst að ég fagna þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og þeirri tímabæru og þörfu stefnumótun sem birtist í henni og felur það m.a. í sér að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins og efla skilning á því að norðurslóðir ná yfir norðurskautið og þann hluta af Norður-Atlantshafssvæðinu sem er nátengdur því.

Hér er komið inn á það að efla beri og styrkja Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samráðsvettvanginn um málefni norðurslóða og að alþjóðlegar ákvarðanir um málefni norðurslóða séu teknar þar. Ég get tekið undir þetta og tel afar mikilvægt að ákvarðanataka sé sem næst þeim svæðum þar sem upptaka málefnanna á sér rót.

Hér er líka lögð á það áhersla að styrkja og auka samstarf við Færeyjar og Grænland með það fyrir augum að efla hag og pólitískt vægi landanna þriggja. Þetta tel ég sjálfgefið að sé mjög mikilvægt. Markmið Vestnorræna ráðsins er að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins og fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda, auka samstarfið innan norrænnar samvinnu og vera þingræðislegur tengiliður milli samvinnuaðila innan Vestur-Norðurlanda og annarra fjölþjóðlegra hagsmunahópa og ríkjasamtaka.

Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál sem flest lúta að málefnum norðurslóða. Það eru mál sem lúta að menningarsamstarfi, félagslegum veruleika á norðurskautssvæðum, mannréttindum og ýmsum félagslegum málefnum en ekki síst umhverfinu og samfélagslegu öryggi. Það gefur augaleið að við teljum að aukin samvinna milli Vestur-Norðurlanda muni styrkja bæði efnahagslega og öryggispólitíska stöðu þeirra allra.

Eins og bent hefur verið á í umræðum hér og eins í ágætri blaðagrein sem hæstv. utanríkisráðherra skrifaði og birtist í Morgunblaðinu í morgun er Ísland eina ríkið í heiminum sem í heild sinni er staðsett á norðurslóðum. Grænland er ekki sjálfstætt ríki en sem þjóð eru Grænlendingar allir innan þessara marka sömuleiðis svo það er ljóst að þróun næstu ára og áratuga mun hafa bein áhrif á afkomu beggja þessara þjóða. Hér hefur náttúrlega verið komið inn á ísbráðnunina og ýmsar breytingar í umhverfinu sem munu m.a. leiða af sér opnun siglingaleiða og aukna skipaumferð, bæði með farþega og vöruflutninga, og því fylgir auðvitað ákveðin hætta á umhverfisslysum sem kallar á aukna aðgæslu í öllum öryggis- og björgunarmálum og allri vöktun umhverfis.

Við vitum, og það hefur líka verið rætt hér, að aukin sókn í auðlindir á hafsbotni getur skapað og er að skapa togstreitu við nýtingu lifandi auðlinda sjávar eins og fiskimiðin, hvalveiðarnar, selveiðarnar, fuglatekjuna; atvinnugreinar sem eru kannski ekki gríðarlega stórar hjá þessum litlu þjóðum sem ég nefndi, aðallega þá Grænlendingum, Færeyingum og okkur Íslendingum. Þetta eru atvinnugreinar með menningarlegar rætur og þær byggja á rétti frumbyggja sem við Íslendingar hljótum ævinlega að standa vörð um og standa með, hvort sem frumbyggjarnir eru á Grænlandi, í Kanada eða annars staðar, til að koma að ákvarðanatöku og eiga rödd við það borð þar sem ákvarðanir eru teknar.

Við þurfum aðgæslu vegna þessa. Við þurfum ekki að deila um það hvort hér er eitthvert hernaðarbrölt í uppsiglingu, við vitum að stórveldin, Bandaríkin, Kanada og Rússland, hafa öll tekið ákveðna hernaðarlega stöðu í þessu máli. Menn eru farnir að flagga á hafsbotni og farnir að skilgreina hagsmuni þarna sem hernaðarlega mikilvæga þannig að auðvitað er ljóst að stórveldin, stærstu hagsmunaaðilarnir og þeir fyrirferðarmestu, verða engin lömb að leika sér við þegar í húfi eru aðrir eins hagsmunir og hugsanleg nýting olíulinda eða gasuppsprettna. Við þurfum að vera á varðbergi gagnvart þessu. Það er ljóst að breytingarnar á umhverfinu og sú staða sem uppi er varðandi auðlindanýtinguna skapa ákveðna áhættu en auðvitað líka tækifæri, eins og fram hefur komið, m.a. fyrir okkur Íslendinga, ekki síst varðandi þjónustu vegna skipaflutninga og ýmislegt sem því tengist. Við þurfum líka að vera mjög vakandi fyrir þeim tækifærum.

Mikilvægast er þó að við getum átt gott og náið samstarf við aðrar þjóðir sem eiga hagsmuna að gæta eins og við. Við þurfum að gæta þess að einangrast ekki og heltast ekki úr þjóðalestinni í hagsmunagæslu okkar. Við erum lítil og vanmáttug þjóð og ekki líkleg til að fá mikla áheyrn hjá stórveldunum þegar þau fara að takast á um ríka hagsmuni og beita breiðspjótum sínum. Við vitum að smáríki eiga einatt undir högg að sækja þannig að það er mjög mikilvægt að halda vel á þessum málum, vera þjóð í samfélagi þjóða og hafa sem slík um það að segja hvernig hagsmunum okkar er fyrir komið í áhættu jafnt sem ávinningi.

Sú áætlun sem liggur fyrir og birtist í þingsályktunartillögunni skerpir að mínu mati vel málefnastöðuna og ég tek heils hugar undir þau stefnumið sem hér eru nefnd. Ég tala nú ekki um réttindi frumbyggja á norðurslóðum, einnig að gæta öryggishagsmuna í víðu samhengi á borgaralegum forsendum og að vinna gegn hvers konar hervæðingu. Það held ég að sé afar mikilvægt, ekki síst í ljósi þess sem við höfum þegar nefnt, að litlar þjóðir sem eiga þarna hagsmuna að gæta, frumbyggjar og fleiri, eru þjóðir sem hafa ekki hernaðarmátt og mega sín lítils í slíku samhengi.

Ég tel líka mjög mikilvægt að leggja rækt við að auka þekkingu Íslendinga á málefnum norðurslóða. Vestnorræna ráðið hefur margoft ályktað um þau efni og hefur skýra stefnu um að auka menningar- og menntasamstarf milli þjóða norðurskautsins og ekki síst vestnorrænu þjóðanna. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu, tek heils hugar undir þau markmið sem hér koma fram og ætla ekki að lengja umræðuna öllu meira en vona að áætlunin verði verulega til þess að skerpa málefnastöðu okkar og gera skref okkar fastari og öruggari í þessu mikilvæga hagsmunamáli.