139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:27]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nokkur orð í lok umræðunnar um norðurslóðastefnu Íslendinga. Fyrst verður fyrir að hrósa hæstv. utanríkisráðherra og hans mönnum. Það er til fyrirmyndar að móta með þessum hætti stefnu á mikilvægu sviði í utanríkismálum og bera hana upp á þinginu til umræðu og samþykktar með breytingum eða ekki. Það lýsir nýrri hugsun í utanríkismálum sem ráðherrann á þátt í að móta með nokkrum forvera sinna. Þetta hefur ekki tíðkast mjög til þessa, enda hefur vaninn verið sá á liðnum áratugum að utanríkismál séu í okkar kerfi eins konar launhelgar, nokkrir ráðamenn sem þar koma við sögu og svo einhverjir oddvitar í viðskiptum, nokkrir höfðingjar í ólígarkaveldinu sem hér hefur loðað við svo lengi, í mesta lagi flokksformenn og þó yfirleitt ekki allir. Þetta er arfur liðinnar tíðar en mótast af því að við tókum við utanríkismálunum, þessi þjóð, vorið 1940, í upphafi heimsstyrjaldar. Þjóðverjar hernámu Danmörku þannig að við vorum neydd til að taka við utanríkismálunum, Bretar hernámu Ísland, svo kom Kaninn og eftir það var kalda stríðið í næstum hálfa öld. Allan þennan tíma var utanríkisráðherrann eins konar jarl í sínu jarlsdæmi í íslenskum stjórnmálum, nánast eins og einvaldur í ríki sínu ef hægt er að kalla það ríki því að ríki hans var fyrst og fremst herstöðin á Miðnesheiði og víðar um landið. Þar voru gögn og gæði öll á hans hendi en eiginleg utanríkisstefna rekin mjög í skugga kalda stríðsins og skugga þess forusturíkis sem okkar megin var í þeirri styrjöld, og þjóðin rótklofin allan tímann í helstu átakamálum. Þegar litið er til baka yfir þetta verður manni eiginlega fyrst fyrir að undrast þann árangur sem þó náðist í mikilvægum málum við þessar ömurlegu aðstæður sem utanríkisráðherrar og aðrir áhugamenn og haghafar um þau efni bjuggu við.

Það þarf ekki að endurtaka orð ráðherrans og annarra ræðumanna um mikilvægi norðurslóða fyrir Íslendinga á okkar tímum, ekki síst auðvitað vegna breytinganna, umskiptanna eða byltingarinnar sem fram undan er, því miður. Það er sjálfsagt að horfa á jákvæða þætti sem geta fylgt þeirri þróun. Það er rækilega gert í þessari tillögu og hefur mjög borið á góma í umræðum í dag, en það er rétt að gleyma því ekki að bakgrunnur þessara breytinga er geigvænlegur. Það eru hraðari loftslagsbreytingar á norðurslóðum en sunnar á hnettinum eins og sést í fjölmörgum vísindaskýrslum. Er rétt að benda hér á ACIA-skýrsluna 2004 sem fyrst varð til þess að opna augu manna fyrir þessu. Þó hefur ákveðið andvaraleysi mótað afstöðu Íslendinga, þar á meðal hér á þinginu, til loftslagsmála. Viðhorfin hafa verið nokkurn veginn þannig að þetta sé eiginlega ekki okkar mál heldur séu það aðrir sem eiga að koma að þessu, komi okkur í raun og veru lítið við nema hvað hér megi alveg vera aðeins hlýrra. Þetta hefur líka einkennt umræðuna í dag með undantekningum, t.d. í pörtum af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Þó erum við þegar farin að fá viðvaranir og gul spjöld, breytingar eru að verða hér á dýralífi í sjó og á landi. Auðvitað getum við ekki sett merkimiða á einstaka þróunarferla í því en það er ljóst þegar maður horfir yfir, ég held að það þurfi ekki mikið vísindavit til að sjá að þessar breytingar eiga rót að rekja til loftslagsmálanna. Við kunnum að vakna upp við vondan draum einn góðan veðurdag, sem ég ætla ekki að reyna að ímynda mér hvernig muni verða.

Sem betur fer veit flutningsmaður þingsályktunartillögunnar og höfundur hennar einn og margfaldur vel af þessari loftslagsvá og það er til aukins hróss að markmið stefnumótunarinnar eru ekki síst tengd henni. Meginstefnan á að miða að því að tryggja hagsmuni Íslands með tilliti til áhrifa loftslagsbreytinga sem fyrst eru nefndar, umhverfis- og auðlindamála, siglinga og samfélagsþróunar, og það er mjög til merkis um þessa vitund að loftslagsbreytingar eru nefndar fyrstar. Þær koma víðar við sögu í þessari tillögu svo sem vert er. Í 2. lið er talað um norðurslóðir sem víðtækt svæði í vistfræðilegum skilningi, ekki síður en efnahagslegum, pólitískum og öryggistengdum. Áherslur okkar þar eru að líta ekki á norðurslóðir sem það þrengsta landfræðilega svæði sem hægt væri að miða við eins og önnur ríki vilja vegna eiginhagsmuna. Þetta markmið fellur vel að umhverfislegum skilningi í þessum efnum.

Í 8. lið, sem er ekki síst mikilvægur þegar litið er á hann frá þeim sjónarhóli sem ég hef valið mér, er líka talað um að efla beri samstarf við önnur ríki. Þar er fyrst nefnd verndun lífríkisins og það er talað um björgunar- og mengunarvarnir, m.a. til að verja hagsmuni Íslands á sviði umhverfisverndar svo gripið sé aðeins niður í tillöguna.

Því hljótum við að fagna líka að ráðherrann lagði í ræðu sinni sérstaka áherslu á að við ættum að nýta, ef ég hef numið rétt þessi orð, aukna þátttöku okkar og ábyrgan málflutning gagnvart norðurslóðum til að styrkja stöðu okkar sem skýrs málflytjanda um aðgerðir alþjóðasamfélagsins gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Það er rétt hjá honum að stefna okkar um norðurslóðir og framkvæmd þeirrar stefnu á að geta gefið okkur aukinn slagkraft, aukinn þrótt í umræðum og ákvörðunum um aðgerðir gegn loftslagsvánni. Það er beinlínis markmið okkar með þessari stefnu að geta beitt okkur af meira afli gegn þeirri vá sem hér er um að ræða og ýmiss konar hliðarafleiðingum hennar á aðstæður okkar hér, á aðstæður nágranna okkar með ýmsum hætti, m.a. frumbyggja, og að sjálfsögðu gagnvart þeirri slysavá sem henni kann að fylgja með hinum auknu umsvifum sem hér eru líkleg í framtíðinni.

Þá verður að segja að þessi pólitík verður líka að hafa áhrif á það hvar og hvernig við beitum okkur. Hér er auðvitað talað um alþjóðastofnanir og ríkjabandalög, Norðurskautsráðið fellur að sjálfsögðu í þann flokk. Ræðumenn hafa líka nefnt aðra hluti. Það var talað um NATO sem ég tel kannski ekki sérlega heppilegan vettvang frá sjónarmiði umhverfismála, en það má ekki binda sig eingöngu við það að heimurinn skiptist í ríki því að í þessum efnum má ekki gleyma mjög sterkri, kröftugri og alþjóðlegri hreyfingu umhverfissinna af margvíslegu tagi. Það vill til að hagsmunir Íslendinga falla meira og minna að stefnumálum þessarar hreyfingar og það er kannski það sem maður saknar í þessari tillögu til þingsályktunar, að í þá stefnu sem þar er borin fram vantar ákvæði um að við eigum að vinna með þessari hreyfingu og vinna sjónarmiðum okkar þar fylgi. Það er afar mikilvægt að ná þar í bandamenn og búa þá til úr ýmsum pörtum þessarar hreyfingar. Við værum að bregðast skyldum okkar ef við reyndum ekki að gera það. Það getur auðvitað kostað það að við þurfum að standast skoðun sem umhverfisþjóð, að við þurfum að svara fyrir okkur og kannski bæta okkur líka á einhverjum sviðum, hvort sem þar er um að ræða kolefnislosun, hvalveiðar eða eiturgufur frá Funa-stöðvum. Þessara áherslna sakna ég helst í þingsályktunartillögu ráðherrans en ég fagna henni hins vegar almennt og sérstaklega umhverfis- og loftslagsáherslum sem þar koma fram og svo kannski öðru fremur þeirri sýn sem kom fram í lokaorðum ráðherrans áðan þar sem hann vakti athygli á að þessa stefnu þyrfti ekki aðeins að líta á með klassíska hagsmuni Íslands og Íslendinga fyrir augum, heldur líka að rýna hana grænum augum með því að umhverfisnefnd Alþingis yrði falið að gefa utanríkismálanefnd álit sitt á tillögunni. Ég held að þau orð hæstv. utanríkisráðherra sýni ágætlega tímabæra nýhugsun í þessum efnum. Hún er langt frá þeim launhelgum liðinnar tíðar sem ég rakti og rifjaði upp í upphafi ræðu minnar.