139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:39]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér þykir alltaf betra að hlusta á hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur en ekki og ég fagna því að hún skuli hafa misskilið ræðu mína á þennan hátt. Það bætti þá við þann tíma sem hún stendur í ræðustól. Ég hef að vísu ekki átt þess kost að hlusta á gjörvalla umræðuna frá A til Ö en þó á nokkuð af henni. Það sem ég sagði um ræðu hv. þingmanns var að þar væri að finna undantekningar frá þeirri reglu að ekki hefði verið mikið rætt um loftslagsmál og umhverfismál í þessari umræðu fyrir utan ákveðna kafla í ræðu ráðherrans. Það leiðréttist þá hér með. Ég held að störf hv. þingmanns í Vestnorræna ráðinu hljóti að hafa leitt hana á þá braut eins og kom fram bæði í ræðu hennar og andsvari. En það þarf ekki til því að búseta hennar í hinum sælu héruðum við ysta haf vestur á fjörðum nægir til að vekja upp næma tilfinningu fyrir þessum þætti málsins.