139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ágæta ræðu. Hann kom víða við og ræddi um umhverfismál og sitthvað fleira. Hann kom hins vegar ekki inn á atriði sem ég saknaði, atriði sem hefur ekki komið fram í umræðunni.

Það vill svo til að hæstv. utanríkisráðherra hefur, ásamt hæstv. forsætisráðherra, skrifað undir skilyrðislausa aðildarbeiðni að Evrópusambandinu. Þegar við erum gengin inn í Evrópusambandið með fulltingi Vinstri grænna, sem hafa staðið að því með Samfylkingunni, höfum við ekkert með utanríkismál að gera. Það finnst mér vanta inn í þessa umræðu að við erum að ræða þetta utanríkismál á sama tíma og við erum að ganga inn í Evrópusambandið. Það væri áhugavert, fyrst hæstv. utanríkisráðherra er viðstaddur, að heyra hjá honum hvort hann hafi einhvern tíma rætt við einhverja í Evrópusambandinu um þetta mál. Við erum þá að semja og gera áætlanir fyrir Evrópusambandið sem mun svo taka yfir utanríkismál Íslands þegar og ef við göngum þar inn, sem ég vona að verði ekki. En Vinstri grænir standa duglega að því að koma okkur þar inn.