139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:43]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að svara fyrir hönd hæstv. utanríkisráðherra sem yfirleitt hefur haft munninn fyrir neðan nefið og bein í nefinu til að svara spurningum af þessu tagi. Ég hygg þó að það sé nokkur misskilningur hjá þingmanninum að utanríkisstefna Íslendinga mundi leggjast af við inngöngu í Evrópusambandið. Það er ekki raunin um þær 27 þjóðir sem þegar eru í Evrópusambandinu og ég hygg að svo yrði ekki heldur um Íslendinga þegar þeir eru gengnir inn.

Sú innganga mundi hins vegar breyta því í utanríkismálum okkar að við hefðum meiri áhrif en við höfum nú vegna þess krafts og afls sem Evrópusambandið hefur í þessum málum. Við mundum þar að auki leggja Evrópusambandinu til ákveðnar víddir sem það hefur ekki núna. Við mundum sennilega að einhverju leyti breyta utanríkisstefnu Evrópusambandsríkjanna, ekki síst um málefni norðurslóða og á þeim málasviðum sem við erum best að okkur í og höfum helst hagsmuna að gæta.