139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar þessi ræða hv. þingmanns verður þýdd yfir á evrópsku í fyrramálið er ég hræddur um að margir muni brosa í kampinn úti í heimi. Þeir þykjast nú kunna að reka utanríkismál í Evrópusambandinu. Þá nefni ég Þjóðverja, Breta og Frakka sem hafa góða og mikla reynslu af því. Svo kemur hv. þingmaður og segir að Íslendingar ætli að hjálpa þeim til við utanríkismál gagnvart norðurpólnum. Ég hugsa að engin þörf sé á því. Ég hugsa að þeir telji enga þörf á því að fá aðstoð frá Íslendingum til að stunda utanríkismál og þeir þekkja hagsmuni sína nákvæmlega. Ég held að það sé þess vegna sem margir vilji gjarnan að Ísland gangi inn til þess einmitt að fá þessa vídd inn í sín utanríkismál og utanríkismálapólitík sem þeir að sjálfsögðu munu þá reka hvort sem þeir gera það í gegnum íslenska sendimenn eða ekki. Ég hugsa að þetta muni gerast.

Það var tímanna tákn að Kínverjar hættu að ræða við Íslendinga um samninga. Kínverjar vissu að ef Íslendingar gengju í Evrópusambandið, sem allt stefnir í, með aðstoð hv. þingmanna Vinstri grænna, þarf ekkert að ræða við Íslendinga. Þá ræða þeir við Evrópusambandið um málefni Íslands.