139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[17:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr mig í reynd tveggja spurninga. Í fyrsta lagi spurði hann um miðbik ræðu sinnar hvort þessi stefna hefði með einhverju móti verið rædd við Evrópusambandið eða frá því greint að til stæði að leggja fram slíka stefnu. Svarið er nei. Þessi stefna hefur ekki verið rædd við eina einustu þjóð og ekki Evrópusambandið. Hins vegar greindi ég frá þessari stefnu í skýrslu minni til þingsins í september sl. en sagði þó í ræðu minni áðan að hún hefði breyst lítillega, eins og hv. þingmaður tók eftir og gat um í andsvari sínu.

Hv. þingmaður þarf ekki að óttast að Evrópusambandið vilji ná sérstökum ítökum í gegnum Ísland í Norðurskautsráðinu. Það hefur nóg ítök þar nú þegar. Þar eru tvö ríki úr Evrópusambandinu, Finnar og Svíar.

Eins og hv. þm. Mörður Árnason gerði grein fyrir í mjög sögulega fróðlegum inngangi um utanríkisstefnu Íslands í ræðu sinni áðan þá var Ísland á áhrifasvæði Bandaríkjanna um áratugi í kalda stríðinu þegar herstöð var hérna. Þá var það einfaldlega þannig að ef kvef eða kvilli kom í iður bandarískra stjórnmálamanna þá fengu íslenskir ráðherrar vindgang. Þetta þekkjum við, herra forseti, það þekkir hv. þingmaður þannig að hann þarf ekki að óttast þó að Ísland gangi í Evrópusambandið að það hafi slík áhrif á utanríkisstefnuna að hann muni hugsanlega tapa svefni af þeim völdum.