139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

rannsóknarnefnd um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003.

147. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vekur athygli mína að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér koma upp til að bregðast við þessum tillöguflutningi drepa málinu á dreif með því að ræða um aðra hluti sem sjálfsagt er að taka hér til umræðu. Sumir þeirra hafa margsinnis komið til umfjöllunar hér og mönnum er frjálst að leggja fram sínar eigin tillögur um það hvernig eigi að skoða þá til þrautar. Hér er hins vegar á ferðinni tillaga um rannsókn á aðdraganda þess að Ísland ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak árið 2003 án nokkurs samráðs við Alþingi.

Ég tel sem sagt að öllum spurningum sé alls ekkert svarað um það, jafnvel þó að þeir sem telja sig bera ábyrgð og báru ábyrgð á þeirri ákvörðun hafi lýst þeirri ábyrgð á hendur sér, ef svo má segja, gengist við því að hafa tekið þær ákvarðanir. Samt eru ekkert öll kurl komin til grafar. Í þeirri umræðu hefur stundum verið sagt: Þið megið leita að öllum gögnum og þið munuð ekki finna neitt.

Það kann að vera rétt, en má ég þá vísa til þess að í Ríkisútvarpinu í október sl. kom fram í fréttum að í utanríkisráðuneytinu hefðu fundist gögn um aðdraganda þess að Ísland var sett á lista hinna viljugu þjóða. Það er nokkuð sem var a.m.k. ekki upplýst um í umræðunni á sínum tíma og það er rétt sem hér hefur verið sagt, þetta mál hefur oftlega komið til umfjöllunar á Alþingi en það var aldrei vilji til þess, a.m.k. ekki á meðan Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fóru með landsstjórnina, að taka þessi mál til rannsóknar. Þess vegna er málið nú komið hér fram.

Hvað það varðar hverju þessi rannsókn á að skila er það talið upp í tillögutextanum og ég fór aðeins yfir það í hverju þessi rannsókn ætti að vera fólgin. Það verður síðan að koma í ljós í kjölfar þeirrar rannsóknar og háð því hvaða upplýsingar koma fram hvað nákvæmlega verður síðan gert í framhaldinu. Það er ekki hægt að fullyrða um það fyrir fram og ég ætla ekki að hafa neinar skoðanir á því hér og nú (Forseti hringir.) hvað muni koma út úr þeirri rannsókn. Ef ég hefði svörin við því þyrfti þessi rannsókn væntanlega (Forseti hringir.) ekki að fara fram.