139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ágætt tilefni eftir ræðu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að taka í stuttu máli stöðuna í samfélaginu við upphaf þessa vorþings. Atvinnuleysi er viðvarandi og viðbrögð ríkisstjórnar voru þátttaka í Eurojob-kynningu á atvinnutækifærum í Evrópu. Skýr skilaboð komu þaðan: Komið ykkur úr landi, þið sem getið fengið vinnu annars staðar. Þetta hafa verið skilaboð ríkisstjórnarinnar.

Um er að ræða minnstu fjárfestingu í atvinnulífi sem verið hefur í áratugi, það er staðreynd. Það er bein afleiðing andstöðu ákveðinna þingmanna stjórnarliðsins við beina erlenda fjárfestingu sem allir eru síðan sammála um að sé nauðsynleg íslensku samfélagi til að það geti endurheimt vopn okkar. Hér hefur pólitísk áhætta aukist verulega. Við sjáum það bara á skýrslum sem birtar hafa verið á vefmiðlum í dag. Það þarf ekki annað en líta til þess hvernig ríkisstjórnin hefur meðhöndlað málefni Magma, gagnavera, hvaða óvissu hún hefur skapað í sjávarútvegi, hvaða afleiðingar það hefur haft, og þá óvissu sem hún skapar með stefnu eða stefnuleysi sínu í orkufrekum iðnaði.

Á sama tíma og hagvaxtarspár fjárlagafrumvarpsins eru byggðar á aukinni neyslu innan lands eru skatta- og gjaldahækkanir að hrynja yfir heimilin. Vantraust aðila á vinnumarkaði gagnvart ríkisstjórninni er algjört sem setur komandi kjarasamninga í uppnám. Það er ekkert traust og forustumenn þar hafa sagt að þeir semji ekki um neitt fyrr en lagabókstafur verður á borðinu.

Þessum blekkingarleik ríkisstjórnarinnar verður að ljúka, virðulegur forseti. Þetta getur ekki gengið lengur. Fagurgali um réttláta, gagnsæja og opna stjórnsýslu hefur reynst innihaldslaus stefna. Verkstjórnin er í molum og stjórnarheimilið logar í illdeilum. Hver ber ábyrgð á því? Eru það forustumenn ríkisstjórnarinnar sem reyna að lengja pólitískt líf sitt eftir um það bil 30 ára þingsetu? Eða eru það hv. þingmenn stjórnarliðsins sem margir taka annars hugar þátt í þessari vitleysu? Hafa allt aðra skoðun og vilja fara allt aðra leið en hæstv. ríkisstjórn er að leiða þá út í. Hér verður að koma á starfhæfri ríkisstjórn, virðulegi forseti, eða boða til kosninga. (Forseti hringir.) Það á ágætlega við það (Forseti hringir.) sem Indefence hefur sagt að þjóðarhagsmunir hafa ekki verið settir í forgang (Forseti hringir.) í svokölluðu Icesave-máli. Þeir hafa ekki verið settir í forgang (Forseti hringir.) í þjóðmálum almennt.