139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og öðrum þingmönnum sem hafa talað á undan mér eru atvinnumálin mér hugleikin. Fyrir helgi var haldinn fundur í Reykjanesbæ í samráðshópi sem settur var á laggirnar eftir víkingaskipafundinn mikla í nóvember. Þar voru sett á laggirnar 10 atriði sem átti að nota til að hrista upp í atvinnumálum á Suðurnesjum. Þar var eitt atriðið, og það sem Suðurnesjamenn kannski bundu mestar vonir við, að athuga ætti hagkvæmni þess að flytja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja. Þeirri athugun átti að vera lokið 1. febrúar. Ég gagnrýndi það á sínum tíma að eyða ætti tveimur mánuðum í að athuga hagkvæmni þess, allar staðreyndir þess máls liggja nefnilega fyrir, þetta er spurningin um ákvörðun. Nú kemur það á daginn á þessum fundi á föstudaginn að ekki er búið gera þessa athugun, vinna við hana er ekki hafin. Búið er að sóa tveimur mánuðum, það er verið að veifa gulrót framan í heilt landsvæði og ekki staðið til að gera eitt eða neitt í þessu.

Ég vil spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, 1. þm. Suðurk., sem ég veit að er mjög áfram um að bæta þessa stöðu, hvort hann viti til þess að standa eigi við þessa dagsetningu, 1. febrúar, og hvort við, þingheimur, getum ekki í sameiningu ákveðið — þingheimur hefur tekið fram fyrir hendurnar á hæstv. ríkisstjórn áður þegar kemur að málefnum Suðurnesja með atkvæðagreiðslu um gagnaver fyrir jól. Getum við ekki tekið þetta mál í okkar hendur? Ég spyr líka: Er einhvers að vænta varðandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um menntamál á Suðurnesjum? Þar var talað um að tryggja ætti rekstrargrundvöll menntastofnananna Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis (Forseti hringir.) en ekkert hefur gerst, það sést ekkert í fjárlögum.