139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hinn 16. júlí 2009 sóttu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra fyrirvaralaust um aðild að Evrópusambandinu fyrir hönd lýðveldisins Íslands. Þetta gerðu þeir í skjóli hv. þingmanna Vinstri grænna sem velflestir stóðu að þeirri samþykkt. Þeir vísuðu til þess að fara ætti fram þjóðaratkvæðagreiðsla en gleymdu að geta þess að hún hefur ekkert gildi því að það er Alþingi sem tekur ákvörðun og hver þingmaður er háður sannfæringu sinni og engu öðru.

Í Fréttablaðinu 31. desember segir, með leyfi forseta:

„Í bígerð er að samninganefnd Íslands í aðildarviðræðum um Evrópusambandið ESB og ráðherranefnd um Evrópumál sæki um styrki vegna umsóknarferils að bandalaginu og til að búa landið undir aðild að Evrópusambandinu.“

Af þessu tilefni langar mig til að spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason, sem er ekkert voðalega hrifinn af því að Ísland gangi í Evrópusambandið, hvort honum sé kunnugt um þessa hjáleið þar sem hægt er að sækja um styrki án þess að sækja um styrki, fá styrki án þess að fá styrki — Ögmundur Jónasson nefndi þann 8. ágúst að það sama gæti hent íslensku þjóðina og henti indíána í Norður-Ameríku sem töpuðu landi sínu öllu fyrir glerperlur og eldvatn, hvort þetta séu í rauninni mútur sem Evrópusambandið er að dæla yfir Ísland til að fá Íslendinga til að samþykkja aðildina, og þetta eru miklir peningar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann viti af þessari hjáleið sem hæstv. ráðherrar eru að undirbúa þannig að þeir geti tekið við þessum miklu peningum án þess að hafa tekið við þeim.