139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hversu langt menn telja sig geta gengið í þeirri viðleitni að reyna að vera sniðugir á kostnað annarra en jafnframt hrokafullir í garð Alþingis og alþingismanna allra. Það gerðist í gær þegar hv. þm. Þráinn Bertelsson lýsti því yfir á fésbókarsíðu sinni að þennan dagskrárlið í þingstörfunum ætti að nefna upp á nýtt. Ég ætla ekki að hafa það nafn eftir en það var ekki hægt að skilja skrif hv. þingmanns öðruvísi en þannig að hann vildi leggja niður liðinn um störf þingsins. Ég er hv. þingmanni fullkomlega ósammála. Störf þingsins eru mikilvægur vettvangur pólitískrar og lýðræðislegrar umræðu á Alþingi sem árum eða áratugum saman hefur verið á dagskrá þingsins samkvæmt þingsköpum sem um liðinn gilda.

Þetta er líka mikilvægur vettvangur fyrir stjórnarandstöðu til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og spyrja ríkisstjórnina spurninga. Það væri eflaust notalegt fyrir ríkisstjórnina að þurfa ekki að svara neinum spurningum frá stjórnarandstöðunni og vera í færum til að múlbinda hana og skerða tjáningarfrelsi hennar en þannig viljum við ekki hafa lýðræðislega umræðu á þingi.

Þessi tiltekni þingmaður hefur svo sem áður talið sig þess umkominn að gefa almenningi sem er honum ekki sammála, t.d. um greiðslur heiðurslauna til listamanna, einkunnir en ég hlýt að ætlast til þess að forseti þingsins taki þau ummæli sem þingmaðurinn lét frá sér fara í gær til alvarlegrar athugunar. Ef ég ætti að gefa hv. þingmanni og þingmönnum Vinstri grænna góð ráð ráðlegg ég þeim (Forseti hringir.) að halda sig við það að veitast opinberlega hver að öðrum en láta félaga sína sem starfa á þingi (Forseti hringir.) og reyna að starfa samkvæmt heiðarleika og samviskusemi í friði fyrir svona (Forseti hringir.) athugasemdum eins og við urðum vitni að.