139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég er komin hingað til að eiga orðastað við hv. formann heilbrigðisnefndar vegna málefna St. Jósefsspítala. Nú er um mánuður síðan við samþykktum fjárlög. Þá var heilbrigðisstofnunin St. Jósefsspítali ein skilin eftir með tæplega 40% niðurskurð og það var gert m.a. á þeirri forsendu að við ætluðum að sameina Landspítala – háskólasjúkrahús og St. Jósefsspítala. Ég gerði grein fyrir atkvæði mínu og mælti ekki á móti þeirri sameiningu að þremur skilyrðum uppfylltum, þ.e. að gætt yrði að öryggi starfsfólks, það yrði í öðru lagi kannað hvernig hægt væri að varðveita þá miklu þekkingu og rannsóknir sem hafa átt sér stað á umliðnum árum og áratugum undir hatti St. Jósefsspítala. Þar skírskota ég til rannsókna á meltingarsjúkdómum, augnsjúkdómum og til að mynda grindarbotnsteymis sem hefur staðið sig aldeilis frábærlega innan veggja spítalans. Síðasta en ekki sísta skilyrðið var að sýnt yrði fram á aukna hagkvæmni í rekstri með því að sameina þessar stofnanir. Gegn þessu er ekki hægt að mæla.

Nú berast mér þær fregnir af þeim hópi sem er að störfum og á að ljúka 1. febrúar að það stefni í að allar skurðlækningar verði færðar strax frá St. Jósefsspítala. Það má kannski spyrja af hverju ég taki þetta upp núna fyrir 1. febrúar, hvort við ættum ekki að bíða og sjá. Ég segi nei, því að ég tel mikilvægt að frá þinginu, þar á meðal frá hv. þingmanni og formanni heilbrigðisnefndar, komi skýr skilaboð í vinnu nefndarinnar, þau að þessir þættir verði sérstaklega kannaðir og passað upp á. Mér skilst að skurðaðgerðirnar muni færast strax, almenn lyflækningadeild verði ekki svipur hjá sjón, með ekkert í kringum sig, rannsóknir og röntgen muni færast frá spítalanum og það verði algjör lágmarksþjónusta í lyflækningadeild. Ef fram heldur sem horfir, að það verði engin starfsemi eftir á spítalanum á þessu ári eða (Forseti hringir.) við lok ársins, tel ég rétt að stjórnvöld segi starfsfólki og íbúum Hafnarfjarðar það strax en sé ekki að tutla með málið allt þetta ár.