139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp þó að ég geti í sjálfu sér litlu svarað. Ég hef fylgst með þessu eins og fleiri, ekki innan úr samninganefndinni heldur umræðunni. Það er verkefnastjórn yfir þessu samningaferli um hvernig eigi að sameina þessar tvær stofnanir og fjórir vinnuhópar yfir mismunandi sviðum. Ég hef ekki heyrt neitt annað en að vinnan gangi vel. Með það í huga að við erum að tala um sameiningu og það séu jafnmargir frá báðum stofnunum í verkefnastjórn og vinnuhópum tel ég og vona að það sé ákveðið vægi í allri umræðu og niðurstöðu hópanna. Meðan maður heyrir ekki neitt annað vona ég að það halli á hvorugan.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það er mikilvægt að standa vörð, í fyrsta lagi náttúrlega um öryggi starfsfólksins en ekki síður um þá þekkingu og rannsóknir sem hafa verið unnar á St. Jósefsspítala. Það hefur ekki komið fram rekstrarleg úttekt á hagkvæmni þessarar sameiningar en ég tel að við þurfum í sjálfu sér ekki að fara í einhverja úttekt á hagkvæmni varðandi þjónustuna því að heilbrigðisþjónustan á St. Jósefsspítala hefur verið góð og hún hefur verið framsýn að mörgu leyti. Ég tel að þar sé í raun og veru um jafningja að ræða en það er rekstrarlegt umhverfi sem verið er að skipuleggja og ég tel að það sé mikilvægt bæði fyrir fjárlaganefnd og heilbrigðisnefnd að fá að fylgjast með framvindunni. Því þakka ég hv. þingmanni fyrir að taka málið upp.