139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[14:57]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir afar leitt ef þessi þingsályktunartillaga skilst þannig hjá hv. þingmanni að hér sé sjónum eingöngu beint að bifreiðum. Það er alls ekki svo og ég ætla bara að renna yfir markmiðin, þau snúast öll um að Ísland verði í forustu fyrir notkun á endurnýjanlegri orku í samgöngum í heiminum.

Í 2. lið er talað um að draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti með því að hvetja til orkusparnaðar. Hefja skal framleiðslu og notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Í 3. lið er fjallað um að skattkerfið verði þróað áfram til að hvetja bæði neytendur og fyrirtæki til orkuskipta í samgöngum og til framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum til samgangna.

Í 4. lið er fjallað um að markvisst verði hvatt til orkusparnaðar í samgöngum og í 6. lið segir: Stuðla skal að rannsóknum, tækniþróun, nýsköpun og atvinnuþróun tengdri endurnýjanlegum orkugjöfum.

Svona gæti ég haldið áfram, virðulegi forseti, þannig að það er ekki rétt mat hjá hv. þingmanni að hér sé skipaflotinn ekki undir heldur eingöngu ökutæki, enda hef ég ávallt skilið það sem svo að fiskiskipaflotinn sé undir þegar við tölum um samgöngur.

Mér þykir það leitt ef hv. þingmaður skilur þessa orkuskiptaáætlun með þeim hætti að hér sé einblínt á ökutæki þegar það er alls ekki svo, enda er alls staðar talað um orkuskipti í samgöngum. Á einstaka stað er talað um ökutæki en það er þá í ákveðnum tilgangi, t.d. vegna skattumhverfisins.

Ég vona að í umfjöllun í nefndinni skýrist þetta allt saman. Hv. þingmaður getur þá lagt til breytingartillögur sem skerpa enn frekar á því að þarna er ekki eingöngu verið að fjalla um ökutæki. (TÞH: Álverin. Álverin.)