139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[14:59]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hæstv. iðnaðarráðherra til hamingju með þessa tillögu til þingsályktunar. Hún snertir á máli sem mikilvægt er að við mörkum stefnu í til langs tíma hér á landi. Þetta er því gott fyrsta skref fyrir okkur. Á Alþingi í vetur höfum við að einhverju leyti fjallað um skyld málefni. Felld voru niður vörugjöld af þeim bifreiðum sem menga minnst þannig að við náðum að tengja vörugjöld og bifreiðagjöld við kolefnisútblástur frekar en þyngd eða stærð véla sem var enn eitt skrefið í rétta átt.

Mig langar að vera praktískur í spurningum mínum til ráðherra. Hvenær telur hún, þar sem hún situr við ríkisstjórnarborðið, að svona umfangsmiklar, næstum því niðurgreiðslur til að stuðla að orkuskiptum, verði að veruleika? Við erum að tala um umfangsmiklar skattaívilnanir, að efla orkusjóð og t.d. fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti af ákveðnum tegundum bifreiða. Þetta styð ég í hjarta mínu en óttast um stöðu ríkissjóðs. Ég spyr því ráðherra: Hvenær telur hún að við munum sjá þetta gerast?