139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[15:01]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil auðvitað sjá flest af þessu gerast sem fyrst en það sem skiptir máli núna er, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, að fá umfjöllun Alþingis um málið, fá samþykki Alþingis fyrir því að fara þær leiðir sem lagðar eru til í þessari orkuskiptaáætlun sem unnin er í samráði við stóran hóp fólks. Þegar því er lokið munum við gera aðgerðaáætlun um hvernig gengið verður til þessara verka. Það verður fyrsta verkið eftir að Alþingi hefur samþykkt þetta.

Ég óttast ekki að ríkið verði af svo miklum tekjum. Ég tel að þær eigi eftir að skila sér með öðrum hætti inn í ríkissjóð vegna þess að ég tel að orkuskiptaáætlunin sé gríðarlega atvinnuskapandi verkfæri. Tekjurnar munu því koma inn annars staðar frá á því tímabili sem umskiptin munu eiga sér stað. Þarna er alltaf talað um að nota skattkerfið tímabundið til að ná orkuskiptunum fram. Nú þurfum við, í samráði við Alþingi, að tímasetja verkefnið og fara yfir það og hvernig við ætlum að vinna það í framhaldinu. Ég hlakka til þess samstarfs. Langmestu máli skiptir þó að ríkisstjórnin á ekki að taka þessa ákvörðun ein heldur verður hún tekin, með þessari þingsályktunartillögu, í samráði við Alþingi.