139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[15:02]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hennar. Ég get tekið undir hvert orð. Ég er sammála nálgun hennar en spyr í kjölfarið: Sér hún fyrir sér að þingnefndin muni tímasetja aðgerðaráætlunina, að frá þinginu komi mælanleg markmið sem hægt er þá að hanka þingið á, eða sér hún fyrir sér að ráðuneytið muni útfæra þessa tímasettu áætlun í kjölfar umfjöllunar Alþingis?

Ég er í hjarta mínu líka sammála þeirri nálgun sem mér finnst birtast í orðum hennar um að hinir hagrænu hvatar skipti hvað mestu máli. Ég tel að ef við ætlum að reyna að ná árangri í umhverfismálum, breyta þjóðfélaginu í rétta átt, þurfum við að beita hinum hagrænu hvötum. Ég held að það sé mjög mikilvægt í nálgun okkar.