139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[15:03]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verkefnið hefur verið unnið í samráði við hagsmunaaðila. Ég held að skynsamlegast sé að leggja aðgerðaráætlunina upp í samráði við hagsmunaaðila. Það er spurning hvort Alþingi geti lagt fram leiðbeiningar eða í vinnu nefndarinnar geti komið ákveðnar leiðbeiningar um hvernig slíkt gæti verið. Ég er algerlega opin fyrir því. Eina sem ég vil er að við náum farsælli lendingu, menn nái að vera samstiga, þing, framkvæmdarvald og síðan geirinn sjálfur, ef maður má orða það svoleiðis, vegna þess að einungis samstiga náum við árangri í þessum málaflokki.

Ég er alveg sammála því að hagrænu hvatarnir skipta mjög miklu máli en það skiptir einnig miklu hvernig nýsköpunarumhverfið styður við fyrirtæki sem starfa á þessu sviði. Það skiptir líka miklu að við gætum að aðgenginu. Samhliða því að beita hagrænum hvötum þurfum við að tryggja aðgengið með einhverjum hætti. Það gerum við t.d. í samráði við sveitarfélög og aðra svo tryggt sé í skipulagi að gert sé ráð fyrir þess háttar orkugjöfum. Ég held að við náum ekki árangri fyrr en fjölskylda eins og mín er búin að keyra fram hjá svona stöðum, í hverfinu sínu eða nálægt hverfinu sínu vegna þess að aðgengið verður að vera býsna greitt til að þetta verði raunhæfur möguleiki fyrir fjölskyldu sem er önnum hlaðin í daglegu lífi. Mér þykir það því ekki síður mikilvægt, þ.e. uppbygging innviðanna samhliða þessu.