139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[15:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að lögð sé fram tillaga til þingsályktunar um orkuskipti í samgöngum. Það er að mínu mati löngu tímabært að við beitum okkur af krafti fyrir því að skipta yfir í innlenda, endurnýjanlega orkugjafa.

Meginástæðan fyrir því að ég ákvað að koma hér upp í ræðu frekar en andsvar við ráðherrann tengist að vissu leyti andsvari hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar og vangaveltum hans um að þingsályktunartillagan sé fyrst og fremst afmörkuð við orkuskipti í samgöngum. Þó þær tillögur sem fram koma í ályktuninni sé hægt að yfirfæra á flestar atvinnugreinar, held ég, og á flestum sviðum væri hægt að nota endurnýjanlega orkugjafa, er mjög greinilegt þegar maður les hina vönduðu greinargerð með ályktuninni að þar er fyrst og fremst horft til almennra farartækja og bíla sem almenningur og íslensk heimili nota. Ég hef væntanlega verið einn af þeim örfáu þingmönnum sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kannaðist ekki við sem hefur spurst fyrir um hvað sé gert annars staðar til að bæta stöðu okkar varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég hef haft sérstaklega mikinn áhuga á þeim atvinnugreinum sem eru hvað öflugastar í kjördæmi mínu, landbúnaði og sjávarútvegi. Ég fékk nýlega svar við skriflegri fyrirspurn sem ég sendi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um útblástur gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi og landbúnaði og til hvaða aðgerða ráðuneytið hefði gripið til að draga úr útblæstri og notkun jarðefnaeldsneytis í sjávarútvegi og landbúnaði.

Ég er líka með fyrirliggjandi munnlega fyrirspurn til sama ráðherra um hver sé umhverfisstefna ráðuneytisins og hvernig henni hefur verið framfylgt frá því ráðherrann tók sæti í ráðuneytinu. Mér þótti einkar athyglisvert þegar ég fékk símtal frá ráðuneytinu þar sem ég var spurð að því hvað ég ætti eiginlega við með umhverfisstefnu. Mér fannst það vera ágætissvar um að umhverfisstefna hefði ekki verið sérstaklega ofarlega í huga ráðuneytisins og ekki ofarlega í umræðunni í þessum tveimur atvinnugreinum fyrst spyrja þurfti um hvað maður ætti við. Því ef eitthvað er þverpólitískt og ætti að ganga þvert á stjórnsýsluna eru það umhverfismál.

Maður sér það í þeim skriflegu svörum sem ég hef nú fengið að starfshóparnir sem hafa verið starfandi um möguleika til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda eru skipaðir sérfræðingum úr mörgum ráðuneytum. Þingsályktunartillagan endurspeglar að miklu leyti hversu þverpólitískt þetta er, þetta gengur þvert á ráðuneytin og stjórnsýsluna. Þótt verið sé að breyta ráðuneytum mjög ört held ég að það sé alveg á hreinu, ef mig misminnir ekki, að iðnaðarráðuneytið hefur ekki samgöngumálin undir sínum hatti. Þarna kemur því fram mjög merk þingsályktunartillaga frá hæstv. iðnaðarráðherra sem fjallar samt sem áður fyrst og fremst um almenn samgöngumál og hvernig eigi að færa eldsneytisnotkun bíla sem við notum yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Ég skal að vísu nefna það, sem ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnaðarráðherra mundi segja, að iðnaðarráðherra fer náttúrlega með orkugjafa og orkusparnað, þ.e. orkumálin. En með mjög litlum lagfæringum á þingsályktunartillögunni væri að miklu leyti hægt að yfirfæra þessi markmið á sjávarútveginn og landbúnaðinn svo þar yrði líka horft á orkugjafana og orkusparnaðinn.

Það kom fram í máli hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar að það eru fyrst og fremst stóriðjan og sjávarútvegurinn sem gefa frá sér CO 2 . Í skýrslu sem umhverfisráðuneytið skilaði af sér árið 2010 er talað um að meðal mikilvirkustu verkþátta sem þjóðin getur beitt til að ná þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér um að standa við svonefnt Kaupmannahafnarsamkomulag, er að efla skógrækt og landgræðslu frá því sem nú er og auka bindingu kolefnis í lífmassa og jarðvegi. Bent er á að skógræktin fari fyrst og fremst fram á vegum landshlutabundinna skógræktarverkefna. Hvað sjávarútveginn varðar kemur losun þar fyrst og fremst úr brennslu á eldsneyti. Tvær af tíu lykilaðgerðum í aðgerðaáætlun sem lýtur að sjávarútvegi varða aukna notkun lífeldsneytis hjá fiskiskipaflotanum, og það mundi ég halda að varðaði virkilega ráðuneyti ráðherrans, og aukna rafvæðingu hjá fiskimjölsverksmiðjum sem margar brenna enn þá olíu við hitun þó hægt væri að nota rafmagn.

Ég mundi vilja, ef vilji ráðherrans er að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og fókusera fyrst og fremst á almennar samgöngur, að settur verði á fót verkefnahópur á vegum tveggja ráðuneyta þar sem farið væri mjög markvisst í að innleiða innlenda endurnýjanlega orkugjafa í landbúnaði og sjávarútvegi. Verkefni þar hafa verið mjög lítil. Það voru mér t.d. mjög mikil vonbrigði þegar ég las um það að Marorka, sem hefur þróað orkusparnaðarhugbúnað, hafi komið hugbúnaði sínum fyrir aðeins í einu skipi í íslenska fiskiskipaflotanum. Áhuginn var ekki meiri en svo.

Þetta tengist líka að mínu mati þeirri endurskoðun sem er núna í gangi á sjávarútveginum eða fiskveiðistjórnarkerfinu, hvernig fiskveiðistjórnarkerfið er sett upp, hvar má veiða og hver mörkin eru og hvers konar veiðarfæri eru notuð. Þetta tengist einnig því hversu mikla olíu, hversu mikla orku, skipin nota og einnig hvernig skipin eru hönnuð. Að vísu er talað um að eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hafi dregist saman en það tengist fyrst og fremst endurnýjun skipaflotans sem hefur verið nokkur. En það hefur hentað betur fyrir útgerðirnar að hanna mjög stutt og raunar kassaleg skip sem hafa mikla dráttarhæfni en krefjast meiri orku en t.d. línuveiðar, eins og menn hafa t.d. bent á.

Mjög mörg jákvæð teikn eru á lofti um að við getum náð þeim markmiðum sem sett eru fram í þingsályktunartillögunni. Nýlega kom fram í fréttum að um 300–400 bifreiðaeigendur hefðu skráð sig á verkstæði sem hefur séð um að breyta bílum sem nota olíu eða bensín þannig að þeir geti notað vetni, væntanlega vegna hás eldsneytisverðs. Í viðtali við innflytjanda rafbíla sagði hann að þar sem við höfum verið mjög fljót til mætti gera ráð fyrir því að árið 2012 yrði hægt að kaupa almenna hefðbundna bíla, allt frá litlum borgarbílum yfir í mjög fullkomna jeppa, sem mundu keyra á rafmagni. Mér finnst rafmagnið vera mjög áhugavert, þótt hæstv. ráðherra talaði um að við ættum ekki að velja okkur orkugjafa eða fókusera fyrst og fremst á einn ákveðinn orkugjafa, því kosturinn við rafmagnið er að þar höfum við dreifikerfið, sem ráðuneytið hefur af miklum krafti komið að í gegnum áratugina við að byggja upp. Við höfum framleiðsluna innan lands og tæknin virðist vera á mikilli fleygiferð.

Þetta var það sem ég vildi sérstaklega nefna. Þar sem hæstv. ráðherra situr nú í ríkisstjórn með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vil ég endilega hvetja ráðherrann til að taka málið sérstaklega upp við ráðherrann og vekja athygli hans á mikilvægi þess að skipta um orku í sjávarútvegi og landbúnaði.