139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[15:15]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svolítið hugsi yfir orðum hv. þingmanns og líka hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar áðan um það hvernig menn skilja hugtakið samgöngur. Ég skil það svo að skipaflotinn sé þar inni. Þegar við tölum um samgöngur erum við líka að tala um skipin vegna þess að þau eru farartæki, bæði skipin og bílarnir og flugvélarnar, virðulegi forseti, við skulum ekki gleyma þeim heldur.

Ég lít svo á að þegar við tölum um orkuskipti í samgöngum sé allt undir í því efni. Hér er vissulega talað sérstaklega um ökutæki á einstaka stað þar sem einblínt er á þau og sérstaklega þegar kemur að skattakaflanum, en í öllum markmiðunum í þingsályktunartillögunni sjálfri er talað um endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum. Út á það gengur tillagan. Ég segi því við hv. þingmann eins og ég sagði við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson: Ef hv. þingmenn telja að ekki komi nægjanlega skýrt fram — og kannski ættum við að vera með skilgreiningu á því hvað samgöngur þýða einhvers staðar í kaflanum — hvað hér er verið að fjalla um er rétt að nefndin taki það til skoðunar hvernig megi skerpa á því. Ég mundi fagna því að svona misskilningur færi ekki víðar.

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að nefna það, af því að hér var talað um landbúnaðinn, að í gangi er orkusparnaðarátak á vegum Orkusetursins og Nýsköpunarmiðstöð hefur komið að því líka og því er beint m.a. að landbúnaðinum og ég vona að það eigi eftir að skila okkur miklum árangri. Við megum heldur ekki gleyma því að markmiðið með frumvarpinu er gjaldeyrissparnaður en það er líka sköpun starfa. Fjölmörg markmið munu því nást með samþykkt þessa máls.