139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

efni og efnablöndur og eiturefni og hættuleg efni.

333. mál
[16:18]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um efni og efnablöndur og lög um eiturefni og hættuleg efni, en frumvarpið tengist aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Evrópusambandið samþykkti í desember 2008 reglugerð nr. 1272/2008, um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna, sem mun verða hluti af EES-samningnum. Gerðin er ekki orðin hluti af þeim samningi, en til þess að tryggja að íslenskt atvinnulíf standi jafnfætis samkeppnisaðilum á Evrópska efnahagssvæðinu er lögð áhersla á að reglurnar taki gildi hér á sama tíma og annars staðar í Evrópu. Til kynningar á efni frumvarpsins hafa verið haldnir opnir kynningarfundir með samtökum í atvinnulífinu. Með frumvarpinu er verið að taka upp samræmda flokkun og merkingu hættulegra efna á heimsvísu, innleiða ný varnaðarmerki, auk nýrra hættuflokka og hættu- og varnaðarsetninga.

Með EB-gerðinni er núgildandi flokkunar- og merkingarkerfi Evrópusambandsins fyrir efni og efnablöndur aðlagað hinu svonefnda GHS-kerfi Sameinuðu þjóðanna (Globally Harmonised System of Classification and Labelling of Chemicals) sem leggja á grunn að hnattrænni samræmingu á flokkun og merkingu efna og efnavara. Þá styður reglugerðin jafnframt við svonefnda REACH-reglugerð sem innleidd var með lögum nr. 45/2008, um efni og efnablöndur, og fjallar um skráningu, mat og leyfisveitingu efna.

Frumvarpið felur í sér breytingar á flokkun, merkingu og umbúðum efna og efnablandna með það að markmiði að vernda heilsu fólks og umhverfi. Ábyrgð á flokkun efna og efnablandna er að mestu leyti færð yfir á framleiðendur. Ný varnaðarmerki munu einnig taka við af þeim varnaðarmerkjum sem verið hafa í notkun. Þá felur nýja flokkunin í sér nýja hættuflokka sem verða töluvert frábrugðnir því sem nú þekkist. Í samræmi við ákvæði frumvarpsins þarf að endurmerkja alla merkingarskylda efnavöru á íslenskum markaði fyrir 1. júní 2015.

Kjarni frumvarpsins kemur fram í 1. og 2. gr. þess. Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um ýmsar skyldur framleiðenda, innflytjenda og eftirnotenda efna. Meðal þeirra veigamestu er skylda til þess að flokka efni og efnablöndur með tilliti til hættu sem stafar af þeim áður en efni og efnablöndur eru sett á markað.

Þá er jafnframt kveðið á um að framleiðandi eða innflytjandi skuli tilkynna hættuflokkun efnis eða innihaldsefna í efnablöndu til Efnastofnunar Evrópu innan 30 daga frá markaðssetningu þess svo birta megi flokkun efnisins í sérstakri flokkunar- og merkingarskrá.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um merkingar og umbúðir efna og efnablandna en samkvæmt greininni skulu birgjar tryggja að efni og efnablöndur séu merkt í samræmi við hættuflokkun þeirra. Einnig er í greininni kveðið á um hvernig umbúðir skuli úr garði gerðar.

Þá fjalla önnur ákvæði í frumvarpinu um breytingar á öðrum greinum til að gæta samræmis innan löggjafarinnar. Þannig er m.a. lagt til að felld verði niður nokkur ákvæði í lögum um eiturefni og hættuleg efni þar sem fjallað verður um þau ákvæði í lögum um efni og efnablöndur verði frumvarp þetta að lögum.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið hér meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.