139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að flytja langt mál um þessa þingsályktunartillögu. Ég vil eingöngu halda því til haga að við fögnum að sjálfsögðu tillögum sem settar eru fram til að bæta hag heimila og verja velferð og þess háttar, sem er eitt brýnasta verkefnið í dag. Ég vona svo sannarlega að farið verði vel yfir þær tillögur sem eru til umræðu. Það þýðir þó ekki endilega að sá er hér stendur sé sammála öllu því sem fram kemur í þessari ályktun, en engu að síður skiptir viðleitnin máli.

Við hljótum að þurfa að ræða áfram stöðu heimila og velferð þeirra, velferð fólksins og eflingu á atvinnulífi, á næstu dögum og vikum í þinginu því að það er það mál sem er hvað brýnast að við leysum úr. Inn í þá umræðu tvinnast að sjálfsögðu spurningin um jafnræði milli fólksins. Er verið að leysa vanda þeirra sem á því þurfa að halda? Reynt er að koma með tillögur fyrir ákveðna hópa en enn sem komið er get ég ekki séð að tekið sé heildstætt á vanda skuldugra heimila og enn síður að búið sé til umhverfi þannig að hér skapist forsendur fyrir fjárfesta, helst innlenda en að sjálfsögðu erlenda líka, til þess að fjárfesta í atvinnulífi. Það er nú líklega eitt af því sem mestu máli skiptir fyrir heimilin, að næg sé atvinna þannig að fyrirvinnur heimilisins geti aflað tekna.

Ég hef þetta ekki lengra að sinni og óska að sjálfsögðu eftir því að þessi ágæta tillaga fái góða meðferð í þinginu og að við fáum fleiri tækifæri til að ræða stöðu heimila og fyrirtækja.