139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ræðu hv. þingmanns. Mér finnst það skjóta skökku við ef þetta er viðhorf annars stjórnarandstöðuflokksins til hins mikla tillagnabálks sem hinn stjórnarandstöðuflokkurinn lagði fram. Ég sem utanríkisráðherra, sem hef látið í ljósi viðhorf mín gagnvart þessari tillögu, er miklu jákvæðari á tillögur Sjálfstæðisflokksins en hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson. Ég ætla ekki að leiða neinum getum að því að það bendi til þess að það séu erjur eða misklíð innan stjórnarandstöðunnar en ég tek miklu jákvæðar á þessum tillögum en sá hv. þingmaður.

Hv. þingmaður notaði síðan tækifærið til að hnýta svolítið í ríkisstjórnina og hélt því m.a. fram að ekkert hefði verið gert varðandi eflingu atvinnulífs og stöðu heimilanna. Frá því að þessi tillaga var lögð fram hefur staðan gjörbreyst að því leyti. Tók þingmaður eftir því boðað var til mikilla mótmæla í gær eða fyrradag fyrir utan þinghúsið? Þegar það var gert í haust var tilefnið nákvæmlega það sama. Þá komu 8.000 manns. Í gær komu 200. Af hverju? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur gripið til ráðstafana sem leysa vissulega ekki úr öllum vanda en fara langt með að leysa bráðasta vanda millistéttarfólksins.

Mér hnykkti þó við að heyra hv. þingmann halda því fram að hér væri ekkert að gerast í atvinnulífinu. Fylgist hv. þingmaður ekki með? Hefur hann ekki séð fréttir t.d. um að Actavis var að byggja nýja verksmiðju og tvöfalda framleiðslu sína? Hefur það farið fram hjá hv. þingmanni að byrjað er að virkja við Búðarháls? Hefur hv. þingmaður misst af því að fjárfesting Ísals og Landsvirkjunar í Búðarhálsi er samtals 89 milljarðar? Hefur hv. þingmaður misst af frásögnum fjölmiðla um hagnað nafna míns Össurar? Svona gæti ég lengi talið. Gleymdi þingmaðurinn því að hér var (Forseti hringir.) samþykktur merkur fjárfestingarsamningur sem tengist gagnaverum?