139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:15]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við stuðlum öll að því markmiði að byggja upp trúnað og traust í íslensku viðskiptalífi og tengslum þess við stjórnmálin. Þessi mál eru sérstaklega mikið í deiglunni núna þegar eignarhald er að færast úr opinberri eigu yfir í einkaeigu. Ég vildi fyrir segja fyrir mitt leyti að þá eru fréttir af atburðum síðustu daga hvað snertir Icelandic Group vonbrigði. Því svona ferli, söluferli á einu stærsta fyrirtæki okkar, á að vera hafið yfir allan vafa og er það ekki í þessu tilviki. Eftir því sem fréttir greina og fram hefur komið á fundum viðskiptanefndar Alþingis virðist vera svo að aðilar sem áhugasamir eru um fyrirtækið sitji ekki allir við sama borð. Forsendur að baki sölunni eru ekki skýrar og salan er t.d. ekki í umsjá þriðja aðila eins og væri nú hyggilegast. Með þessu verða til gróusögur í samfélagi okkar sem eru ekki til að hjálpa til við þann trúnað og það traust sem við viljum byggja upp. Verklagsreglur eru til staðar en þær virðast ekki duga í þessu tilviki. Þess vegna hljótum við þingmenn að kalla eftir miklu skýrari lagaramma um hvernig standa beri að einkavæðingu fyrirtækja og að þingnefnd, viðskiptanefnd í þessu tilviki, geti fengið upplýsingar um stöðu mála en á þeim sé trúnaður svo að bankaleynd sé tryggð.

Mig langar að heyra hvað ráðherrann vill gera að svo komnu máli. Hvað vill hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, gera? Er hann sáttur við frammistöðu fulltrúa Landsbankans í þessu tilviki, fulltrúa ríkisvaldsins í stjórn Landsbankans? Og er hann sáttur við frammistöðu fulltrúa ríkisins í Bankasýslunni?

Eins og málið lýtur að mér finnst mér það ljóst að ekki hefur verið farið eftir þeim viðmiðum sem við viljum setja um söluferli og ég veit ekki betur en ráðherrann sé að stofni til sammála þeim viðmiðum að söluferli okkar mikilvægustu fyrirtækja sé opið og gagnsætt og hafið yfir allan vafa.