139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:18]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægar aðstæður sem upp hafa komið hvað varðar einkavæðingu á fyrirtækjum í ríkiseigu. Það snýst um traust á íslensku viðskiptalífi, traust á íslenskri stjórnsýslu, traust á íslenskum stjórnmálum í kjölfar hrunsins. Hér átti að gera hlutina með öðrum formerkjum en áður, en í Vestia-dæminu er farið af stað í risastóra einkavæðingu út í óvissuna í annað sinn hjá þessari ríkisstjórn. Í desember árið 2009 í lok fjárlaga, þegar tveir af þremur íslenskum viðskiptabönkum í eigu ríkisins, Íslandsbanki og Arion banki, voru seldir til óþekktra aðila sem hétu því nafni kröfuhafar, átti sér stað stærsta einkavæðing ríkisfyrirtækja í sögunni. Nú er höggvið í sama knérunn. Það er allt á huldu hverjir eru að kaupa eigur ríkisins og á hvaða verði.

Á sínum tíma, þegar umræðan um Bankasýsluna og væn fyrirtæki sem mundu falla í eigu ríkisins vegna hrunsins, var alltaf talað í þá veru að hér ætti að ríkja breytt hugmyndafræði og aðrar aðferðir en verið höfðu fram að því. Það var alltaf talað um það. Það þýðir ekki að koma hér upp, hæstv. fjármálaráðherra, og segja þetta bara er svona. Sú hefur ekki verið raunin að hér hafi ríkt breytt hugmyndafræði og aðrar aðferðir. Hér hefur einfaldlega algerlega mistekist að leggja línurnar fyrir betra viðskiptaumhverfi og betra viðskiptasiðferði. Þessu verður að breyta ef einhvern tímann á að vera hægt að reka viðskiptalíf á Íslandi á eðlilegum forsendum. Enn er allt gert á bak við tjöldin, í reykfylltum bakherbergjum, eins og áður fyrr. Það er óþolandi að í þriðja sinn á örfáum árum skuli risastórar einkavæðingar vera gerðar í leynd og í ógagnsæju umhverfi. Það er einfaldlega óþolandi.