139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

grunsemdir um njósnir á Alþingi.

[10:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég kem upp af sömu ástæðu og hv. þm. Ólöf Nordal. Mig langar til að bæta við þær spurningar sem hv. þingmaður lagði fyrir hæstv. forseta. Mig langar til að vita, þar sem það er upplýst að þetta gerðist í febrúar í fyrra, næstum því heilt ár hefur liðið og eftir því sem mér best er kunnugt hefur okkur þingmönnum ekki verið greint frá þessu með einum eða neinum hætti og ég hlýt að spyrja: Stóð til að láta okkur vita af þessu? Stóð til að við fengjum að vita af þessum atburðum?

Í annan stað, getum við verið viss um það núna að gripið hafi verið til þannig aðgerða að við séum örugg með tölvugögnin okkar? Hefur hæstv. forseti fengið vitneskju um að tölvugögn Alþingis séu algerlega örugg? Mér finnst þetta grafalvarlegt mál og ég ítreka óskir hv. þm. Ólafar Nordal um að hæstv. forseti gefi okkur skýrslu. Ég óska eftir því að það verði formleg skýrsla sem við getum rætt í þingsal.