139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

grunsemdir um njósnir á Alþingi.

[10:39]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Sú forsíðufrétt sem fram kemur í Morgunblaðinu í dag er auðvitað grafalvarleg og varðar þingmenn allra flokka og Alþingi sjálft. Það eru grunsemdir um að fartölvu hafi verið komið fyrir í skrifstofuhúsnæði Alþingis gagngert til að afrita gögn úr tölvum þingmanna úr tölvukerfi Alþingis. Ef það er rétt þá er hér um að ræða grófustu árás sem Alþingi Íslendinga hefur orðið fyrir í sögu sinni sem ber að taka alvarlega og ég fer fram á að hæstv. forseti flytji þinginu skýrslu um þetta mál tafarlaust.

Það vekur auðvitað grunsemdir, svo það sé bara sagt, að þessi tölva hafi fundist í skrifstofuhúsnæði Hreyfingarinnar, ekki síst vegna tengsla eins hv. þingmanns við (Forseti hringir.) vef sem hefur það að markmiði að birta illa fengin gögn. Ég ætla ekki að fella neina dóma eða fullyrða neitt í þessu máli (Forseti hringir.) en það gerir málið allt hið tortryggilegasta.