139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

grunsemdir um njósnir á Alþingi.

[10:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma upp við þetta tækifæri og taka undir þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð um mikilvægi þess að þetta mál verði skoðað og þingmönnum verði gefin um þetta ítarleg skýrsla. Þetta er auðvitað háalvarlegt mál og óþægilegt að vita til þess að maður situr í svo gott sem næstu skrifstofu við herbergið þar sem þessi tölva finnst.

Það er einnig gríðarlega mikilvægt að reyna að upplýsa hvort einhver tengsl eru á milli Wikileaks og þessarar tölvu. Það kemur fram í Morgunblaðinu að taldar séu einhverjar líkur á því og vissulega var Julian Assange, forsvarsmaður Wikileaks, og jafnvel aðrir frá þeim samtökum á þessu svæði og á skrifstofuhæð okkar á þessum tíma. Það er staðreynd. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt, ekki síst fyrir þau samtök, að vandlega sé farið yfir þetta mál og reynt að fría þau eða rannsaka til hlítar hvort þau eiga einhvern þátt þarna að eða ekki.