139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

grunsemdir um njósnir á Alþingi.

[10:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir að forseti skuli ætla að hafa frumkvæði að því að málið verði rætt sérstaklega síðar í dag og þinginu flutt um það skýrsla. Ég get út af fyrir sig tekið undir með hæstv. utanríkisráðherra að við skulum ekki gefa okkur eitt eða neitt en ég er hins vegar ekki sammála honum þegar kemur að því að þetta sé hluti af hinum daglega veruleika sem við þurfum að sætta okkur við eða nýja veruleika, hvernig sem hann orðaði það. Þetta er eitthvað sem er algjörlega óásættanlegt. Þegar komnir eru flugumenn inn í Alþingi sem starfa innan frá Alþingi með sínar tölvur, vegna þess að þetta er auðvitað ekkert annað, það er auðvitað ekkert annað á seyði hér en að flugumenn hafa brotið sér leið inn á þingið og komið sér þar fyrir. Það er það sem blasir við mér. Þá er það svo grafalvarlegt að við verðum að fara ofan í saumana á því og nota öll tiltæk ráð til þess að rannsaka það í þaula. Það er mín krafa.

Síðan vil ég láta þess getið vegna þess sem mér skilst að hafi komið fram í umræðunni áðan, þ.e. að ég hafi verið upplýstur fyrir löngu um þetta mál en það er alrangt. Ég hef engar upplýsingar haft um þetta mál fyrr en það kemur núna í dagsljósið.